Erlent

Græningjar sam­þykkja að ráðast í form­legar stjórnar­myndunar­við­ræður

Atli Ísleifsson skrifar
Annalena Baerbock er annar leiðtoga Græningja og var kanslaraefni flokksins í nýafstöðnum kosningum. Við hlið hennar er Olaf Scholz, kanslaraefni Jafnaðarmanna. Allt bendir til að Scholz muni taka við kanslaraembættinu af Angelu Merkel á næstu vikum.
Annalena Baerbock er annar leiðtoga Græningja og var kanslaraefni flokksins í nýafstöðnum kosningum. Við hlið hennar er Olaf Scholz, kanslaraefni Jafnaðarmanna. Allt bendir til að Scholz muni taka við kanslaraembættinu af Angelu Merkel á næstu vikum. EPA

Mikill meirihluti þýskra Græningja samþykkti í gær að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Jafnaðarmenn (SPD) og Frjálslynda demókrata (FDP).

Græningjar þurftu, flokkslögum samkvæmt, að boða til aukaflokksþings til að greiða atkvæði um hvort að flokkurinn ætti að ráðast í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Græningjar urðu þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu eftir kosningarnar í landinu þann 26. september síðastliðinn. Jafnaðarmenn, með Olaf Scholz sem kanslaraefni, varð stærsti flokkurinn, en Kristilegir demókratar (CDU/CSU), flokkur Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, urðu næststærstir og misstu mikinn fjölda þingsæta.

Jafnaðarmenn, Græningjar og Frjálslyndir demókratar áttu í könnunarviðræðum síðustu vikuna til að kanna hvort að grundvöllur væri fyrir því að ráðast í formlegar viðræður um myndun nýrrar stjórnar.

DW segir frá því að flokkarnir ætli sér að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að tryggja að Þýskaland geti staðið við þær skuldbindingar sem kveðið sé á um í Parísarsáttmálanum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þá ætli flokkarnir að flýta því til ársins 2030, í stað 2038, að í áföngum hætta í notkun kola.

Jafnaðarmenn samþykktu formlega fyrir sitt leyti síðasta föstudag að ráðast í formlegar stjórnarmyndunarviðræður á meðan reiknað sé með að fulltrúar FDP geri slíkt hið sama síðar í dag.


Tengdar fréttir

Skatta­mál og lofts­lags­mál helsti á­steytingar­steinninn

Líkur eru á að þýski Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD), Græningjar og Frjálslyndir demókratar (FDP) muni ljúka könnunarviðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar fyrir lok þessarar viku. Helst er deilt um skattamál og loftslagsmál í viðræðunum.

Hver er þessi Olaf Scholz?

Þjóðverjar munu brátt sjá nýjan mann í embætti kanslara í stað Angelu Merkel sem stýrt hefur landinu frá árinu 2005. Eftir kosningar á sunnudag má telja líklegast að það verði Olaf Scholz fjármálaráðherra sem var kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins (SPD) í nýafstöðnum kosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×