Íslenski boltinn

KR fékk tvo sóknarmenn

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Bjartur Hallsson, Aron Snær Friðriksson og Stefan Alexander Ljubicic eru orðnir leikmenn KR.
Sigurður Bjartur Hallsson, Aron Snær Friðriksson og Stefan Alexander Ljubicic eru orðnir leikmenn KR. VÍSIR/VILHELM

KR-ingar kynntu á blaðamannafundi í dag til leiks tvo nýja framherja sem verða með liðinu á næstu fótboltaleiktíð.

Leikmennirnir heita Stefan Alexander Ljubicic og Sigurður Bjartur Hallsson. Þeir verða til taks hjá KR þegar liðið leikur í Sambandsdeildinni á næstu leiktíð en KR fékk Evrópusæti úr því að Víkingur varð bæði Íslands- og bikarmeistari.

Stefan skoraði 9 mörk í 24 leikjum fyrir HK á síðustu leiktíð, þar af 6 mörk í 21 leik í Pepsi Max-deildinni. HK féll hins vegar niður um deild í lokaumferðinni. 

Stefan hefur einnig leikið með Grindavík og Keflavík í efstu deild en þessi 22 ára, hávaxni og líkamlega sterki framherji, var á mála hjá Brighton í Englandi á táningsárum eða þar til hann kom til Grindavíkur sumarið 2019.

Sigurður Bjartur er einnig 22 ára gamall. Hann er uppalinn Grindvíkingur og blómstraði í sumar þegar hann skoraði 17 mörk í 21 leik í Lengjudeildinni og varð næstmarkahæstur í deildinni. Þá skoraði hann tvö mörk í Mjólkurbikarnum. Sumarið 2020 skoraði hann átta mörk í 19 leikjum í Lengjudeildinni.

Áður höfðu KR-ingar tilkynnt um komu markvarðarins Arons Snæs Friðrikssonar sem kom til félagsins frá Fylki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×