Myndband úr íslenskum framhaldsskóla, sem sjá má hér að neðan, er innlend birtingarmynd alþjóðlegrar tískubylgju á TikTok, þar sem kröftugt dyraat er bara enn eitt sporið í fjörugum dansi unga fólksins við lagið Die Young eftir Kesha.
Eins sakleysislegt og þetta kann að virðast í fyrstu, hafa þessi myndbönd hrundið af stað bylgju kerfisbundinna og grófra hrekkja hjá unglingum í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi.
Þeir fara, oft seint á kvöldin, og sparka í hurðir og glugga á heimilum fólks sem á sér einskis ills von. Fólk sem fréttastofa hefur rætt við vaknar oft með andfælum, eltir jafnvel óknyttaunglingana út á götu með misjöfnum árangri og er sumt farið að veigra sér við að hafa börnin ein heima vegna þessara ofsókna. Þessu er líkt við jarðskjálfta, þegar fimm í einu sparka og berja í hús og glugga.
Fjölskyldufaðir í Vesturbæ segir á Facebook að hávaðinn líkist innbroti og húsmóðir á Seltjarnarnesi segir dóttur sína svo óttaslegna að hún þori ekki að vera ein heima vegna ofsóknanna. Í Facebook-hópunum er fólk að stilla saman strengi í von um að hafa uppi á óknyttaunglingunum og koma fyrir þá viti.
TikTok er snar þáttur í lífi íslenskra ungmenna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem misviturlegar tískubylgjur eiga upptök sín í heimi forritsins – og rata svo út í raunheima, fullorðnum til nokkurs ama: