Handbolti

Upphitun SB: Finnur vonbrigðalið KA taktinn gegn meisturunum?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Rafn Eiðsson og félagar í KA eru vonbrigðalið tímabilsins að mati Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar.
Einar Rafn Eiðsson og félagar í KA eru vonbrigðalið tímabilsins að mati Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar. vísir/vilhelm

Þeir Stefán Árni Pálsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hituðu upp fyrir leikina sem eftir eru í 5. umferð Olís-deildar karla.

Þrír leikir fara fram í Olís-deildinni á sunnudaginn og 5. umferðinni lýkur svo með leik HK og Aftureldingar á mánudaginn. Tveimur leikjum í umferðinni er þegar lokið. ÍBV vann FH, 26-25, 3. október og á miðvikudaginn sigraði Stjarnan Selfoss, 20-25.

Á sunnudaginn mætast Grótta og Haukar, Víkingur og Fram og KA og Íslands- og bikarmeistarar Vals. Allir leikirnir hefjast klukkan 18:00 og verður leikur KA og Vals sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Leikur HK og Aftureldingar verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 19:30 á mánudaginn. Eftir hann verður svo farið yfir 5. umferð Olís-deildar karla í Seinni bylgjunni.

Klippa: Seinni bylgjan - Upphitun fyrir 5. umferð Olís-deild karla

Stefán Árni og Ásgeir eru hvað spenntastir fyrir leik KA og Vals. KA-menn hafa farið rólega af stað og eru aðeins fjögur stig eftir sigra á nýliðum HK-inga og Víkinga. Á meðan eru Valsmenn með fullt hús stiga.

„Í raun er hægt að segja að þeir hafi verið mjög slakir og ólíkir sjálfum sér. Þeir virka ótrúlega langt frá því að vera búnir að finna taktinn, eins og það vanti smá karakter. Þetta er klár vonbrigði hvað það varðar,“ sagði Ásgeir og bætti við að KA hefði ollið honum mestum vonbrigðum það sem af er tímabils.

„Ég hélt þeir yrðu ógeðslega spennandi en núna er ekkert gaman að horfa á þá. En það er ekki mikið búið og þeir hafa klárlega tíma til að rífa sig í gang og það er það sem þeir ætla sér. Ef ég væri þeir myndi ég byrja á andanum og fá þá til að berjast eins og þeir gerðu undir lokin í fyrra.“

Ásgeir segir að Afturelding þurfi einnig að rífa sig í gang en Mosfellingar hafa bara unnið einn leik. „Þeir eru á allt öðrum stað en þeir ætluðu sér í byrjun móts,“ sagði Ásgeir sem gerir þá kröfu á að Afturelding vinni HK á mánudaginn. Það sé algjör skyldusigur.

Upphitunarþátt Seinni bylgjunnar fyrir 5. umferðina má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×