Bas hefur síðustu ár gegnt stöðu varaformanns þingflokks Jafnaðarmanna, en hún tók sjálf fyrst sæti á þingi árið 2009. Hún er þingmaður Duisburg.
Embætti þingforseta er talið næstæðsta pólitíska embættið í stjórnskipan landsins, á eftir forseta landsins en er talið æðra embætti kanslara. Schäuble hafði gegnt embætti þingforseta frá árinu 2017.
Eftir þingkosningarnar sem fram fóru 26. september síðastliðinn, þar sem Jafnaðarmannaflokkurinn varð stærstur á þingi, var ljóst að líkur væru á að þrjú æðstu pólitísku embættin í landinu yrðu skipuð karlmönnum og var því þrýst á það úr ýmsum áttum að kona tæki við embætti þingforseta.
Frank-Walter Steinmeier er forseti Þýskalands og bendir flest til að Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz taki við embætti kanslara af Angelu Merkel, en Jafnaðarmenn, Græningjar og Frjálslyndir demókratar eiga nú í viðræðum um myndun stjórnar.
Bas verður þriðja konan til að gegna embætti þingforseta í Þýskalandi. Annemarie Renger gegndi embætti þingforseta Vestur-Þýskalands á árunum 1972 til 1976 og Rita Süssmuth á árunum 1988 til 1998.