Indland er þriðji stærsti losandi gróðurhúsalofttegunda í heiminum um þessar mundir. Í aðdraganda ráðstefnunnar sem hófst í Glasgow í gær höfðu indverskir embættismenn talað um að þeir hefðu ekki hug á að taka þátt í markmiði um kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina. Mikilvægara væri að ákveða hvernig hægt væri að draga úr losun á næstu árum og áratugum.
Modi tilkynnti um kolefnishlutleysismarkmið Indlands í blálok ávarps síns á ráðstefnunni í dag. Það sætti tíðindum því Indverjar hafa ekki áður sett sér markmið um að losun gróðurhúsalofttegunda verði nettó hlutlaus, eða að hún verði ekki umfram það magn kolefnis sem er bundið í landinu.
Gangi markmið Indverja og annarra þjóða eftir verja Indverjar tuttugu árum á eftir Bandaríkjamönnum og Evrópubúum að ná kolefnishlutleysi og tíu árum á eftir Kínverjum.
Þrátt fyrir að Indland sé um þessar stundir þriðji stærsti losandi heims hefur landið aðeins losað rúm þrjú prósent af öllum þeim gróðurhúsalofttegundum sem mannkynið hefur spúið út í andrúmsloft jarðar í gegnum tíðina og bera þannig tiltölulega litla ábyrgð á þeim loftslagsbreytingum sem nú eiga sér stað og eru fyrirsjáanlegar.
Indverjar eru fleiri en milljarður talsins og er losun þar miðað við höfðatölu margfalt lægri en í þróaðri ríkjum. Breska ríkisútvarpið BBC segir að árið 2019 hafi losun þar verið um 1,9 tonn af koltvísýringi á mann, borið saman við 15,5 tonn á hvern Bandaríkjamann og 12,5 tonn á hvern Rússa.
Ætla að framleiða helming orkunnar á vistvænan hátt innan tíu ára
Modi setti fram fleiri fyrirheit á COP26-ráðstefnunni. Sagði hann Indland stefna á að endurnýjanlegir orkugjafar framleiði helming alrlar orku í landinu fyrir árið 2030. Dregið verði úr losun um milljarð tonna fyrir þann tíma.
Til þess að það náist þarf umbyltingu á orkukerfi Indlands en það framleiðir nú um helming af raforku sinni með því að brenna kolum, verstu uppsprettu gróðurhúsalofttegunda.