Staley hafði áður sagst harma samband sitt við Epstein sem svipti sig lífi í fangelsi í New York sumar 2019. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að Staley hafi vitað af brotum Epstein gegn ungum konum og stúlkum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Breska fjármálaeftirlitið birti skýrslu um bráðabirgðaniðurstöður sínar um samband Staley og Epstein þegar sá fyrrnefndi sinnti einkabankaþjónustu fyrir Epstein hjá bandaríska fjárfestingabankanum JP Morgan á sínum tíma.
Staley er sagður sem þrumu lostinn og reiður yfir niðurstöðum fjármálaeftirlitsins sem hafa þó ekki verið gerðar opinberar. Breska ríkisútvarpið BBC segir að svo virðist sem að rannsóknin hafi leitt í ljós að frásögn Staley af sambandi sínu við Epstein fyrir stjórn Barclays stemmi ekki við þau gögn sen yfirvöld hafa undir höndum.
Fjöldi tölvupósta sem fór á milli Staley og Epstein og tónn þeirra bendi til þess að samband þeirra hafi verið nánara en Staley hefur viljað gangast við til þessa.
Barclays sagði í yfirlýsingu að sátt hefði verið á milli stjórnar bankans og Staley um að hann myndi hætta í ljósi niðurstaðana yfirvalda og þess að Staley ætli að mótmæla þeim formlega.