Viðskipti innlent

Gagna­veita Reykja­víkur komin með nýtt nafn

Atli Ísleifsson skrifar
Breytingin er eingöngu á heitinu og það starfar áfram á sömu kennitölunni.
Breytingin er eingöngu á heitinu og það starfar áfram á sömu kennitölunni. OR

Nafni Gagnaveitu Reykjavíkur hefur formlega verið breytt í Ljósleiðarinn eftir að hafa komið fram undir því merki síðustu sjö ár.  

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir að nafnabreytingin hafi verið ákveðin á hluthafafundi 12. október síðastliðinn. Breytingin er eingöngu á heitinu og það starfar áfram á sömu kennitölunni.

„Fyrirtækið rekur víðfeðmt ljósleiðaranet og er enn á fullu í uppbyggingu, einkum á Suðurnesjum þessa dagana. Öll stærstu fjarskipta- og efnisveitufyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um net Ljósleiðarans og hefur fyrirtækið verið lífæð samkeppni á fjarskiptamarkaði síðustu ár,“ segir í tilkynningunni.

Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri.OR

Haft er eftir Erling Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Ljósleiðarans að félagið hafi tekið upp vörumerkið Ljósleiðarinn árið 2014, þegar verið var að ljúka við ljósleiðaravæðingu allra heimila í Reykjavík.

„Nú nær okkar grunnnet miklu víðar og við erum enn að stækka það og þétta. Þetta sem upphaflega var heiti á okkar helstu þjónustu hefur smátt og smátt færst yfir á fyrirtækið sjálft og með þessari breytingu erum við að staðfesta þá þróun. Sum hafa kallað okkur Gagnaveituna, önnur GR, enn önnur Gagnaveitu Reykjavíkur en nú viljum við festa Ljósleiðaranafnið í sessi,“ er haft eftir Erling.

Fleiri en 100 þúsund heimili eru tengd ljósleiðaraneti Ljósleiðarans en lagnirnar í því eru samtals hátt í sjö þúsund kílómetrar að lengd. Ljósleiðarinn er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur en eigendur hennar eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×