Fótbolti

Aron Elís í liði mánaðarins í Danmörku

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Elís Þrándarson hefur verið í hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns hjá OB og staðið sig vel. Hér verst hann í leik gegn Bröndby.
Aron Elís Þrándarson hefur verið í hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns hjá OB og staðið sig vel. Hér verst hann í leik gegn Bröndby. Getty/Lars Ronbog

Knattspyrnumaðurinn Aron Elís Þrándarson hefur verið valinn í lið októbermánaðar í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Aron Elís er annar af tveimur fulltrúum OB í liðinu en hinn er markvörðurinn Hans Christian Bernat.

Áður hafði Aron Elís verið valinn leikmaður mánaðarins hjá OB svo ljóst er að hann hefur staðið sig vel síðustu vikur á miðjunni hjá liðinu. Þar að auki skoraði hann mikilvægt mark í bikarleik gegn Nordsjælland þegar OB vann í framlengingu og komst áfram.

Frammistaðan ætti að styrkja stöðu Arons í baráttunni um að komast aftur í íslenska landsliðshópinn en nýr hópur verður tilkynntur í hádeginu á morgun, fyrir síðustu leikina í undankeppni HM. Aron Elís var síðast í landsliðinu vegna vináttulandsleikjanna snemma í sumar, gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi, og spilaði leikinn við Mexíkó.

OB gerði markalaust jafntefli við AGF á heimavelli á mánudaginn og er liðið í 7. sæti af 12 liðum í dönsku úrvalsdeildinni, með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×