Fótbolti

Ajax í sex­tán liða úr­slit | Inter vann í Transi­stríu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ajax er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Ajax er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. ANP Sport/Getty Images

Ajax tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með 3-1 sigri á Borussia Dortmund í kvöld. Þá vann Inter einnig 3-1 sigur á Sheriff Tiraspol.

Mats Hummels fékk rautt spjald eftir tæplega hálftíma leik. Það virtist ekki koma að sök þar sem Marco Reus kom Dortmund yfir skömmu síðar með marki úr vítaspyrnu og heimamenn voru 1-0 yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleik sýndu gestirnir frá Amsterdam gæði sín er þeir skoruðu þrjú mörk. Dusan Tadic jafnaði metin, Sebastian Haller kom Ajax yfir og að lokum tryggði Davy Klaassen sigur gestanna, lokatölur 3-1.

Í hinum leik C-riðils vann Sporting 4-0 sigur á Besiktas.

Ajax er á toppi riðilsins með 12 stig og komið áfram í 16-liða úrslit. Þar á eftir koma Dortmund og Sporting með sex stig á meðan Besiktas er án stiga.

Í D-riðli var Inter í heimsókn hjá Sheriff. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Marcelo Brozović Inter yfir á 54. mínútu. Milan Škriniar tvöfaldaði forystuna og Alexis Sanchez tryggði sigurinn áður en Adama Traore minnkaði muninn fyrir heimamenn í uppbótartíma.

Lokatölur 3-1 og Inter hafði þar með sætaskipti við Sheriff. Inter er nú í 2. sæti með sjö stig, tveimur á eftir toppliði Real Madríd. Sheriff er í 3. sæti með sex stig og Shakhtar Donetsk rekur lestina með 1 stig.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×