Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að Guðni muni eiga tvíhliða fundi með Macron og Maia Sandu, forseta Moldóvu.
„Síðdegis býður sendiráð Íslands í París til móttöku þar sem forseti flytur erindi um sýnileika smáþjóða í alþjóðastarfi – nauðsyn þess og áskoranir. Loks mun forseti sitja kvöldverð í Elysée-höll, ásamt öðrum þjóðhöfðingjum, í boði Frakklandsforseta.
Að morgni föstudagsins 12. nóvember sækir forseti ráðstefnuna Green Hydrogen Symposium sem fram fer í Lúxemborgarhöll. Þar verður fjallað um framþróun á sviði vetnismála í Frakklandi og á Íslandi. Öldungadeild franska þingsins stendur fyrir vetnisráðstefnunni, í samvinnu við fransk-íslenska viðskiptaráðið og sendiráð Íslands í París, og mun forseti flytja erindi um orkuskipti og áskoranir í þeim efnum. Ráðstefnuna sækja einnig fulltrúar franskra orkufyrirtækja og forstjórar Landsvirkjunar, Grænvangs og HS Orku á Íslandi.
Síðdegis á föstudag heldur forseti á aðalráðstefnu UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer annað hvert ár og er að þessu sinni haldin samhliða 75 ára afmælishátíð stofnunarinnar. Forseti flytur stutt ávarp á aðalráðstefnunni, en Ísland er nú í framboði fyrir hönd Norðurlandanna til framkvæmdastjórnar UNESCO árin 2021–2025.
Á vettvangi afmælisviðburðar UNESCO mun forseti eiga tvíhliða fundi með Alar Karis, nýkjörnum forseta Eistlands, og Salome Zourabichvili, forseta Georgíu,“ segir í ferð forseta til Frakklands.