Birgir Ámannsson formaður undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis segir að á fundi nefndarinnar í dag hafi verið ákveðið var að hluti nefndarinnar fari aftur í vettvangsferð á talningarstaðinn í Norðvesturkjördæmi á hótel Borgarnesi á morgun.
„Til að fara í gegnum atriði sem varða afstemmingu bunka og þess háttar. Við erum auðvitað við það að ljúka gagnaöflun í málinu,“ segir Birgir. Aðeins eigi eftir að binda nokkra lausa enda varðandi gagnaöflunina.
Nefndin hafi skoðað fjölmörg álitamál og vinna hennar sé langt komin.
„En við eigum hins vegar eftir að ræða þessa erfiðustu þætti sem lúta að mati. Bæði mati á þeim upplýsingum sem við höfum þegar fyrir hendi varðandi atburðarás en líka mat á lagaatriðum,“ segir Birgir.
Í grunninn væri verkefnið að meta hvort kjörbréf þingmanna sem Landskjörstjórn gaf út skuli teljast gild eða ógild. Reynt hafi verið að haga nefndarstörfum þannig að allir væru nokkurn veginn samstíga og þannig hafi það verið varðandi málsmeðferðina.
„Nú á hins vegar eftir að reyna á hvort það helst í gegnum allt ferlið. Hvort fólk metur hlutina með sama hætti eða mismunandi. Fyrirfram er auðvitað ekkert hægt að segja um það en við munum hins vegar leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu,“ segir formaðurinn. Nefndin muni ekki ljúka störfum fyrr en í næstu viku.
Um leið og niðurstaða hennar liggur fyrir verður þing kallað saman og formleg kjörbréfanefnd kosinn. Reiknað er með að hlé verði gert á fyrsta þingfundi kjörtímabilsins á meðan nefndin mótar tillögur sínar sem fara síðan til atkvæðagreiðslu á Alþingi.
„Þannig að sú atkvæðagreiðsla sem ræður úrslitum í málinu fer fram í þingsal,“ segir Birgir Ármannsson.