Erlent

Met dag eftir dag í „faraldri óbólusettra“ í Þýskalandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Yfirgefin gríma á Römerberg-torgi í Frankfurt í Þýskalandi.
Yfirgefin gríma á Römerberg-torgi í Frankfurt í Þýskalandi. AP/Michael Probst

Fleiri en fimmtíu þúsund manns greindust smitaðir af Covid-19 í Þýskalandi í gær og var það fjórða daginn í röð sem nýtt met yfir fjölda smitaðra á einum degi var slegið. Yfirvöld hafa lýst þessari bylgju sem „faraldri óbólusettra“.

Þrátt fyrir að mun færri þurfi að leggjast inn á sjúkrahús nú en í fyrri bylgjum faraldursins segja þýsk yfirvöld að sjúkrahús séu að fyllast á þeim svæðum þar sem smitaðir eru flestir.

Áætlað er að um 67 prósent landsmanna séu fullbólusettir í Þýskalandi en yfirvöld segja það ekki nægilega hátt hlutfall. Þau hafa þó ekki viljað feta í fótspor sumra annarra Evrópuríkja sem hafa gert bólusetningu að skyldu fyrir ákveðnar starfsstéttir.

Ólíkar sóttvarnareglur gilda innan Þýskalands. AP-fréttastofan segir að nær alls staðar sé aðgangur að viðburðum og mörgum mannvirkjum skilyrtur við að fólk sé ýmist bólusett, með mótefni eða hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku en þeim reglum er ekki fylgt fast eftir.

Stjórnvöld hættu að bjóða upp á ókeypis hraðpróf fyrir alla þá sem vildu til þess að gefa eftirlegukindum hvata til að láta bólusetja sig. Kallað hefur verið eftir að hraðprófin verði aftur gerð aðgengileg öllum.

Stjórnmálaflokkarnir þrír sem ræða nú um myndun ríkisstjórnar ætla ekki að framlengja neyðarástand vegna faraldursins sem var lýst yfir í mars í fyrra. Þess í stað ætla þeir að setja ný lög um sóttvarnaaðgerðir vegna faraldursins sem veittu lagastoð fyrir grímuskyldu og fjarlægðartakmörkunum á opinberum stöðum þar til í mars á næsta ári, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Þá íhuga flokkarnir að leyfa vinnuveitendum að krefjast þess að starfsmenn sýni fram á að þeir séu bólusettir, séu með mótefni eftir eldra smit eða hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×