Erlent

Lúkasjenka óskar eftir hernaðaraðstoð frá Rússlandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lúkasjenka (t.v.) og Pútín eru bandamenn miklir.
Lúkasjenka (t.v.) og Pútín eru bandamenn miklir. Mikhail Svetlov/Getty

Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, hefur óskað eftir því að fá lánaðar sprengjuflugvélar, sem geti borið kjarnorkuvopn, frá Rússum. Samkvæmt talsmanni Kreml er Vladímír Pútín, forseti Rússlands, í stöðugu sambandi við Lúkasjenka vegna ástandsins á landamærunum. 

Spennan vegna ástandsins á landamærum Hvíta-Rússlands að Póllandi, Litháen og Lettlandi hefur farið vaxandi síðustu daga og vikur. Svo virðist sem Hvítrússar séu að vígbúast á landamærunum en samkvæmt uppfærslum Liveuamap á Twitter hefur Lúkasjenka kallað eftir því að landamæraverðir vígbúist. 

Undanfarnar vikur hafa flóttamenn og farendur safnast saman við landamærin Hvíta-Rússlands megin en Evrópusambandið hefur sakað Lúkasjenka um að stefna fólkinu þangað í pólitískum tilgangi. Flestir flóttamannanna eru ungir karlmenn frá Mið-Asíu og Mið-Austurlöndum en í hópnum, sem telur þúsundir manna, eru einnig konur og börn.  

Haft er eftir Lúkasjenka að verið sé að flytja vopn og skotfæri að landamærunum við Donbas. Þar séu hópar Kúrda, sem að sögn Lúkasjenka eru miklir stríðsmenn. Leiða má að því líkum að Lúkasjenka vilji nýta sér stöðu þessara flóttamanna í þeim tilgangi að vígbúa þá og beita þeim gegn landamæravörðum Póllands. 

„Ef okkur verður ógnað mun koma til átaka,“ er haft eftir Lúkasjenka úr beinni útsendingu ríkissjónvarps Hvíta-Rússlands. 

Hundruð flóttamanna gerðu tilraun til að komast yfir landamærin að Póllandi í gær og eru þeir sagðir hafa veist að landamæravörðum. Ástandið er því mjög eldfimt. 

Þá er Lúkasjenka sagður hafa óskað eftir hernaðaraðstoð frá Rússum, en þeir Pútín séu í stöðugu sambandi. 

„Já, við viljum sprengjuflugvélar. Sem geta flutt kjarnorkuvopn. En við höfum ekki annarra kosta völ. Við verðum að fylgjast með því hvað þeir eru að gera hinum megin við landamærin.“

Þá greindi Liveuamap frá því fyrir stuttu að Varnarmálaráðuneyti Hvíta-Rússlands hafi birt ljósmynd af rússneskri Blackjack sprengjuflugvél á sveimi yfir landinu. Myndin var sögð hafa verið tekin í dag en Liveuamap hefur  nú greint frá því að myndin hafi líklega verið tekin við hernaðaræfingu í september í fyrra. 

Ryhor Azaronak, einn helsti áróðursmeistari Hvíta-Rússlands, kom þá fram í ríkissjónvarpinu í morgun og ógnaði Póllandi og Litháen. Sagði hann mannúðarkrísuna sem hafi myndast á landamærunum á ábyrgð Pólverja. Hótaði hann því jafnframt að stríð væri yfirvofandi og sagði hvítrússneska herinn ætla að drekkja flóttamönnum frá Eystrasaltsríkjunum í Eystrasaltinu. 


Tengdar fréttir

ESB segir Lúkasjenka haga sér eins og glæpamaður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, um að laða flótta- og farandfólk til landsins og nota það í pólitískum tilgangi. Hegðun hans sé ómannúðleg og glæpsamleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×