Hluti nefndarinnar fór öðru sinni í Borgarnes í gær til að yfirfara kjörgögn í Norðvesturkjördæmi. Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar segir að þá hafi komið í ljós nokkur frávik til viðbótar við þau sem áður höfðu komið fram vegna endurtalningar í kjördæminu.
„Frávikin sem við sáum voru ekki veigamikil en þau voru nokkur. Það virtist vera að þarna hefðu einhverjir atkvæðaseðlar ratað í ranga bunka,“ segir Birgir.
Ekki þó þannig að það skipti máli varðandi heildarniðurstöðuna en orðið til þess að nefndarfólk fór nákvæmar í gegnum bunkana en til hafi staðið í upphafi ferðar.
Má þá ætla að atkvæðin hafi verið talin rétt en lent í vitlausum bunka eða verið talin rangt líka?
„Okkur sýnist að þau hafi verið talin rangt en þar munaði ekki miklu. Það var um að ræða tilflutning á einu atkvæði á milli tiltekinna lista og annað á móti og þess háttar. Þannig að þetta var ekki veigamikið.“ Segir Birgir.
Nefndarfólk sem fór í Borgarnes í gær gaf hinu nefndarfólkinu skýrslu um ferðina á fundi nefndarinnar í dag. Þá var einnig farið yfir málsatvikalýsingu málsins í heild og athugasemdir sem nefndinni hefur borist við hana.
Birgir segir að þær verði skoðaðar nánar um helgina og næsti fundur haldinn á mánudag. Vonadi liggi tillögur fyrir í næstu viku.
Kynning á nýjum stjórnarsáttmála veltur á niðurstöðum nefndarinnar og síðan Alþingis. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir formenn stjórnarflokkanna komna langt í textavinnu fyrir nýjan stjórnarsáttmála.
„Við höfum sagt að það sé mikilvægt að Alþingi sé í raun og veru búið að taka afstöðu til þeirra mála sem uppi eru í Norðvesturkjördæmi. Þannig að ég held að það sé mikilvægt að það liggi fyrir. Því ríkisstjórn verður ekki mynduð fyrr en niðurstöður kosninga eru algerlega skýrar,“ segir Katrín.
Þannig að ef kjörbréfanefnd gerir að lokum tillögu um að staðfesta beri útgáfu kjörbréfa þingmanna í Norðvesturkjördæmi samkvæmt seinni talningu eins og Landskjörstjórn hefur gefið út og Alþingi samþykkir það í atkvæðagreiðslu, gæti ný ríkisstjórn verið kynnt fyrir lok næstu viku.
Ef niðurstaða Alþingis verður hins vegar aðfara beri í uppkosningu í Norðvesturkjördæmi mun kynning á nýrri ríkisstjórn og stjórnarsáttmála dragast fram yfir þá kosningu. En talið er aðhægt yrði aðboða til uppkosningar meðum tíu daga fyrirvara.