Samningaviðræður standa enn yfir á loftslagsráðstefnunni í Glasgow. Ráðstefnunni átti að ljúka klukkan sex í gærkvöldi en þá voru birt drög samkomulagi. Tinna Hallgrímsdóttir, formaður ungra umhverfissinna segir margt jákvætt í samningsdrögunum þó annað gangi ekki nógu langt.
„Þetta er í fyrsta skipti sem minnst er á jarðefnaeldsneyti í texta sem fellur undir samninginn en við vitum náttúrulega að það er einn helsti óvinurinn í baráttunni við loftslagsbreytingar. Það er sigur út af fyrir sig, að það sé minnst á það. Hins vegar sjáum við að orðalagið hefur veikst frá fyrstu drögum,“ segir hún.
Tinna segir að með samningsdrögunum verði erfitt að halda markmiðinu um 1,5 gráðu á lífi.
„Við erum nær en við vorum áður en samt langt frá því sem við þurfum að vera. Við erum núna að stefna á hlýnun upp á 2,4 gráður til 2,7 gráður, sem er náttúrulega óásættanlegt,“ segir Tinna.
Markmiðin dugi ekki til að tryggja færsæla framtíð fyrir ungt fólk og aðrar lífverur sem deila jörðinni með okkur. Því hafi leiðtogar heimsins brugðist.