Grein FÍB ber fyrirsögnina „Það tók 10 mínútur að hirða 2,5 milljarða af viðskiptavinum Sjóvár,“ og var birt á vef FÍB í gær. Þar segir að á hluthafafundi tryggingafélagsins í október síðastliðnum hafi samþykkt verið að greiða hluthöfum félagsins 2,5 milljarða króna til að laga fjármagnsskipan félagsins, eins og segir í fundargerð tryggingafélagsins Sjóvár.
„Á mæltu máli þýðir þetta að Sjóvá hafi safnað mun meiri fjármunum í sjóði sína en þurfti til að standa undir tryggingastarfseminni,“ segir enn fremur í grein FÍB. Þá segir að félagið hafi einnig borgað þeim 2,65 milljarða króna í arð vegna ársins 2020 og samtals hafi hluthafar Sjóvár því fengið 5,15 milljarða króna frá tryggingafélaginu.
Staða tryggingafélaganna sérstök
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir í samtali við fréttastofu að iðgjöldin sem neytendur greiði séu í fyrsta lagi allt of há. Ökutækjatryggingar eru lögbundnar, sem merkir að óheimilt er að aka bíl án þar til gerðra ökutækjatrygginga, og sé staða tryggingafélaganna því sérstök.
„Á sama tíma og félögin kvarta yfir taprekstri - þó allar kennitölur veiti vísbendingu um annað, þá sýnir það sig svolítið líka hvernig það er lag til gríðarlegra arðgreiðslna. Hins vegar virðist ekki vera neitt lag til að bæta kjör viðskiptavina,“ segir Runólfur.
Runólfur telur einnig að félögin geri neytendum erfitt fyrir þegar að því kemur að kaupa ökutækjatryggingar. Torvelt geti verið að nálgast verðsamanburð, enda þurfi sérstaklega að óska eftir tilboði, til dæmis með því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á síðu tryggingafélags.
Krefst aukins gagnsæis
Runólfur nefnir að tryggingafélögin ættu tvímælalaust að halda uppi meira gagnsæi, þannig að hægt sé að bera saman mismunandi verð trygginganna og sundurliðun með nákvæmari hætti. Ökutækjatryggingar séu yfirleitt sambærilegar og því ætti að vera auðvelt að birta þetta með skýrari hætti.
„Eðlilegt væri að það sé einhvers konar gátt til þess að gera verðsamanburð. Nú verður að vera með kennitölu og fólki er þetta gert erfiðara fyrir. Við vitum ekki hvernig þessi verð eru ákveðin. Þetta er auðvitað hluti af neyslu almennings sem að kemur öllum við og er stór hluti af útgjöldum heimilanna,“ segir Runólfur.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur áður fjallað um málið, en síðast í september greindi fréttastofa frá því að FÍB hafi sent kvörtun til Fjármálaeftirlitsins. Ástæðan kvörtunarinnar var meint hagsmunagæsla framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, fyrir hönd tryggingafélaganna.