Erlent

Fjórir slösuðust þegar gömul sprengja sprakk í München

Eiður Þór Árnason skrifar
Slökkvilið, lögregla og lestarstarfsmenn voru kallaðir til á staðinn.
Slökkvilið, lögregla og lestarstarfsmenn voru kallaðir til á staðinn. AP/DPA/Sven Hoppe

Fjórir slösuðust í gær þegar 250 kílógramma sprengja frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sprakk á byggingarsvæði nærri járnbrautarlínu í München í Þýskalandi. Minnst einn er alvarlega slasaður að sögn yfirvalda en atvikið olli samgöngutruflunum.

Ósprengdar sprengjur finnast enn reglulega í Þýskalandi, nú þegar 76 ár eru liðin frá endalokum stríðsins, og oft í tengslum við framkvæmdir á byggingarsvæðum. Eru þær þá yfirleitt gerðar óvirkar eða sprengdar í stýrðum aðgerðrum.

Joachim Herrmann, innanríkisráðherra sambandslandsins Bæjaralands, sagði í samtali við þýska fjölmiðla í gær að umrædd sprengja hafi fundist við borun á vinnusvæðinu. Sá sem slasaðist alvarlega var byggingaverkamaður.

Herrmann sagði jafnframt tilefni til þess að rannsaka hvers vegna sprengjan hafi ekki fundist fyrr þar sem sérstök leit að ósprengdum sprengjum fari yfirleitt fram áður en vinna hefst á slíkum svæðum. 

Á byggingarsvæðinu, sem er rúmlega kílómetra vestur af aðallestarstöðinni í München, er unnið að því að leggja nýja lestarstofnlögn. Sprengingin olli engum skemmdum á lestarteinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×