Fótbolti

Þjóðverjar takmarka fjölda áhorfenda á íþróttaviðburðum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
63.812 áhorfendur mættu á leik Borussia Dortmund og Mainz 05 um miðjan október síðastliðinn. Einungis geta 15.000 áhorfendur verið á vellinum þegar Bayern München kemur í heimsókn á laugardaginn.
63.812 áhorfendur mættu á leik Borussia Dortmund og Mainz 05 um miðjan október síðastliðinn. Einungis geta 15.000 áhorfendur verið á vellinum þegar Bayern München kemur í heimsókn á laugardaginn. Mareen Meyer/Borussia Dortmund/Getty Images

Hertar sóttvarnaraðgerðir í Þýskalandi kveða á um að takmarka verði fjölda áhorfenda á íþróttaviðburðum þar í landi.

Þannig mega íþróttahallir og -vellir aðeins taka við áhorfendum í helming þeirra sæta sem í boði eru, en þó aldrei mega ekki fleiri en 15.000 áhorfendur mæta á viðburði utanhúss og 5.000 áhorfendur á viðburði innanhúss.

Þá þurfa áhorfendur að bera grímur á íþróttaviðburðum, og í þeim sambandsríkjum landsins þar sem smittölur eru sérstaklega háar gæti þurft að fresta einstaka viðburðum.

Stórleikur ársins í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta fer fram á laugardaginn þegar Borussia Dortmund tekur á móti Bayern München á Signal Iduna Park, eða Westfalenstadion eins og völlurinn er oftast kallaður.

Westfalenstadion tekur rúmlega 80.000 manns í sæti og því verða áhorfendapallarnir heldur tómlegir þegar stórliðin mætast seinni part laugardags þar sem toppsæti deildarinnar er í boði. Eins og staðan er núna sitja gestirnir frá München í efsta sæti þýsku deildarinnar með 31 stig eftir 13 leiki, aðeins einu stigi fyrir ofan Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×