Innlent

Reynir að samræma þingstörfin embætti forseta bæjarstjórnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Guðbrandur Einarsson var kjörinn á þing fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi í nýafstöðnum alþingiskosningum. Hann er jafnframt forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fyrir Beina leið.
Guðbrandur Einarsson var kjörinn á þing fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi í nýafstöðnum alþingiskosningum. Hann er jafnframt forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fyrir Beina leið. vísir

Nýkjörinn þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi ætlar að láta reyna á hvort hann geti jafnframt haldið áfram að gegna embætti forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Fimm mánuðir eru til sveitarstjórnarkosninga á næsta ári.

Guðbrandur Einarsson var kjörinn á þing fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi í nýafstöðnum alþingiskosningum. Hann er jafnframt forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fyrir Beina leið sem er í meirihlutasamstarfi með Framsóknarflokknum og Samfylkingunni sem Guðbrandur var lengi fulltrúi fyrir.

Miklar annir eru á Alþingi þessa dagana við fjárlagafrumvarp og tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar sem koma til fyrstu umræðu eftir hádegi.

Guðbrandur er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd fyrir Viðreisn og situr í efnahags- og viðskiptanefnd sem fær tekjufrumvörpin til sín. Hann ætlar að skoða á næstu vikum hvort hann geti haldið áfram að sinna embætti forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Guðbrandur Einarsson nýkjörinn þingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi er jafnframt oddviti Beinnrar leiðar óg forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.viðreisn

„Eins og allir vita er það að sitja í sveitarstjórn hlutastarf. Flestir eru að gera það meðfram annarri vinnu. Við erum að halda bæjarstjórnarfundi klukkan fimm á daginn þegar þeir eru haldnir. Þannig að í flestum tilvikum getur maður samræmt þetta annarri vinnu. Þannig að ég ætla bara að skoða hvernig þetta muni ganga í framhaldinu,“ segir Guðbrandur.

Bæjarstjórnarfundir eru haldnir fyrsta og þriðja þriðjudag í hvernjum mánuði þannig að það er fundur í dag og væntanlega einnig þriðjudagin 21. desember. Á sama tíma geta þingfundir staðið fram á kvöld, sérstaklega rétt fyrir jól.

Guðbrandur segist ekki ætla að láta bæjarmálin koma niður á þingstörfum enda er þingmönnum skylt að sækja bæði þing- og nefndarfundi. Það verði kallaður inn varamaður í bæjarstjórn ef á þurfi að halda.

„Þetta er auðvitað mikið núna fram að áramótum af því fjárlagagerðin er í fullum gangi. Svo verður maður bara að skoða málin í framhaldinu.“

Þú sinnir ekki bæjarstjórn á meðan?

„Nei, ég fæ nú reyndar að hlaupa heim í dag til að mæta á bæjarstjórnarfund. Við erum að klára fjárhagsáætlunargerðina okkar fyrir næsta ár. Við klárum það á fundi klukkan fimm í dag,“ segir Guðbrandur.

Óvissa ríki um hvort Bein leið bjóði aftur fram í bæjarstjórnarkosningunum í vor sem hann hafi verið oddviti fyrir.

„Það verður alla vega skoðað að bein leið dragi sig í hlé og Viðreisn fari af stað. En það er auðvitað bara mál sem verður skoðað með hækkandi sól,“ segir Guðbrandur Einarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×