Fyrstu rannsóknir frá Suður-Afríku benda til þess að bóluefnið frá Pfizer veki 40 sinnum veikari viðbrögð við Omíkron en öðrum afbrigðum en niðurstöðurnar byggja á blóðprufum úr tólf einstaklingum og frekari niðurstaða er að vænta á næstu dögum.
Ryan segir öll bóluefnin gegn Covid-19 hafa reynst vel við að vernda gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum og engar vísbendingar séu uppi, enn sem komið er, um að fólk sé að verða veikara af Omíkron en öðrum afbrigðum.
„Ef eitthvað virðist það frekar vera vægara,“ segir hann.
Alex Sigal, veirufræðingurinn sem fór fyrir rannsókninni á áhrifum Pfizer á Omíkron, segir niðurstöðurnar þrátt fyrir allt betri en hann átti von á. Bólusetning í kjölfar eldri sýkingar veiti mögulega mjög góða vörn gegn nýja afbrigðinu, sem þykir benda til þess að örvunarskammtar gætu skipt sköpum.
Engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum Moderna, AstraZeneca eða Janssen á Omíkron.
Enn er margt á huldu um afbrigðið en Anthony Fauci, helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta í sóttvarnamálum, tók undir það á dögunum að ýmis teikn væru á lofti um að Omíkron væri meira smitandi en Delta-afbrigðið en mögulega vægara.
BBC greindi frá.