Innlent

Mörg hundruð blóðmerar í eigu Ísteka

Telma Tómasson skrifar
Arnþór Guðlaugsson er framkvæmdastjóri Ísteka. Hann hefur neitað að ræða blóðmerahald fyrirtækisins undanfarnar vikur þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir fréttastofu.
Arnþór Guðlaugsson er framkvæmdastjóri Ísteka. Hann hefur neitað að ræða blóðmerahald fyrirtækisins undanfarnar vikur þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir fréttastofu. Vísir/Elín

Ísteka, fyrirtækið sem framleiðir frjósemislyf úr merablóði einkum fyrir svínarækt erlendis, rekur sjálft þrjár starfsstöðvar (bújarðir) þar sem blóðtaka er stunduð og átti 283 hryssur sem voru í blóðtöku á þessu ári, 2021.

Þetta kemur fram í svari frá Matvælastofnun (MAST) við fyrirspurn fréttastofu. Ætla má að fyrirtækið eigi mun fleiri hryssur en koma fram í þessum tölum, unghryssur og mertryppi sem ætluð eru í blóðtöku til framtíðar. 

Í Worldfeng, ættbók íslenska hestsins, má til að mynda sjá að 81 merfolald fæddist hjá Ísteka í Austur-Húnavatnssýslu árið 2020 og 104 eru skráð árið 2019. Það eru því ekki einungis bændur sem gera samning við fyrirtækið um sölu á blóði, heldur stendur fyrirtækið sjálft einnig í blóðmerabúskap.

Tekur tvær vikur að bregðast við blóðtapinu

Fréttastofan óskaði eftir upplýsingum frá MAST á grundvelli laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda meðal annars um rannsókn sem vísað hefur verið til um blóðgildi og velferð hryssa eftir blóðtöku, enda hefur hvorki stofnunin né Ísteka lagt fram sýnileg gögn sem styðja fullyrðingar um að hryssunum verði ekki meint af. Í svari MAST segir orðrétt: ,,Við reglubundið eftirlit Matvælastofnunar er fylgst með hryssunum strax eftir blóðtöku og í því eftirliti hafa ekki komið fram vísbendingar um óeðlilegt atferli eða vanlíðan hjá hryssum eftir blóðtöku.“

Íslenski hesturinn hefur verið vinsæl útflutningsvara um árabil. Hesturinn tengist ekki merarblóðhaldi.Vísir/Vilhelm

Í svarinu segir jafnframt að meðal skilyrða sem sett eru fyrir starfsemi Ísteka sé að annað hvert ár séu gerðar rannsóknir á blóðbúskap hjá blóðtökuhryssum og öflugur gagnagrunnur hafi safnast með tímanum um þann þátt. Þar komi fram að lækkun á meðalstyrk blóðrauða eftir fyrstu tvær blóðtökurnar sé um 18 prósent, eftir það haldist styrkur blóðrauða stöðugur út blóðtökutímabilið og nái fyrri styrk tveimur vikum eftir að blóðtöku er hætt, eins og segir í svari MAST. Þannig virðist sem það taki hryssurnar tvær vikur að bregast við blóðtapinu og segir MAST að lægsta meðalgildið sé vel innan vikmarka frá meðalstyrk blóðrauða hjá íslenskum reiðhestum. Þessar upplýsingar er þó erfitt að sannreyna þar sem vísað er í gögn sem ekki eru opinber.

Háværar siðferðilegar spurningar

Siðferðilegar spuringar hafa verið háværar í umræðunni eftir að alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin AWF/TSB birtu myndband af blóðtöku úr hryssum á Íslandi. Á fjórða þúsund manns hafa nú sett nafn sitt við undirskriftasöfnun um að banna blóðmerahald á Íslandi þegar þetta er skrifað. 

Þá reyndist meirihluti svarenda við könnun Fréttablaðsins vera andsnúinn blóðmerahaldi, en niðurstöður voru birtar 11. desember síðastliðinn.

Andstæðingar starfseminnar segja blóðtöku úr hryssum yfirhöfuð ekki samræmast lögum um dýravernd og sanngirni í dýrahaldi, meðan aðrir hvá og benda á að menn og konur gefi blóð án þess að það þyki tiltökumál. Líffræðilega er talið erfitt að bera þetta tvennt saman, en benda má þó á að barnshafandi konur mega ekki gefa blóð hér á landi, né heldur konur með barn á brjósti. Spendýr sem ganga með afkvæmi eða ala það undir sér eru taldir viðkvæmir einstaklingar sem þurfa sérstaka aðgæslu.

Hvorki eftirlit MAST né innra eftirlit Ísteka kom í veg fyrir þann kaldranalega aðbúnað og utanumhald við blóðtöku sem sýnt er í mynbandi AWF/TSB. Myndin tengist ekki merarblóðhaldi með beinum hætti.Vísir/vilhelm

Áleitin er einnig spurningin um tilgang með blóðtöku/blóðgjöf. Í mannheimum er blóð gefið til að bjarga lífum og styrkja veika einstaklinga, merarblóðið er hins vegar notað til lyfjaframleiðslu til að auka frjósemi og stilla saman gangmál, einkum í svínarækt. Á það hefur verið bent að víða er pottur brotinn í svínarækt á meginlandinu og gyltur gjóti grísum langt umfram það sem náttúrulegt þykir, grísadauði sé gríðarlegur og afföll gyltna á fyrsta árinu mikil.

Svo er önnur hlið á málinu, en það er hið arðvænlega líftæknifyrirtæki Ísteka. Fyrirtæki sem veitir tugum atvinnu, stuðlar hugsanlega að því að auðvelda fólki búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins og skilar fjármunum út í samfélagið.

Það verður væntanlega hlutverk starfshóps að svara þessum spurningum og öðrum, starfshóps sem Svandís Svavarsdóttir landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa til að skoða sem flestar hliðar á þeirri umdeildu starfsemi sem blóðmerahald til framleiðslu á frjósemislyfinu eCG er. Starfshópnum verður meðal annars falið að skoða starfsemina, regluverkið í kring um hana og eftirlit, en spurningamerki hefur verið sett við hvort það hafi verið nægjanlegt í gegnum tíðina. Eftirlitshlutverkið er í höndum MAST annars vegar og Ísteka hins vegar, sem sinnir innra eftirliti.

Segist með fjármagn og mannafla til að sinna eftirliti

MAST kveðst hafa yfir að ráða mannskap og fjármuni til að mæta nýjum kröfum um eftirfylgni við blóðmerabúskap eins og getið er um í ályktun Fagráðs um velferð dýra frá 24. nóvember 2021 sem tryggi að dýrin þurfi ekki að upplifa aðfarir eins og þær sem sáust í nýbirtu myndbandi.

Þá sé eftirlit virkt að vetri, fylgst sé með aðbúnaði hryssa í blóðmerastóðum fjórða hvert ár, samkvæmt eftirlitsáætlun. Stofnunin telur sig vel í stakk búna til að sinna eftirlitshlutverki sínu, hafi bæði mannafla og næga fjármuni, sem fáist með innheimtu eftirlitsgjalda frá bændum annars vegar og Ísteka hins vegar.

Skjáskot úr myndbandinu sem segja má að varpað hafi ljósi á blóðmerarhald fyrir hinum almenna Íslendingi.TSB TIERSCHUTZBUND ZURICH

Bæði eftirlit MAST og innra eftirlit Ísteka kom þó ekki í veg fyrir þann kaldranalega aðbúnað og utanumhald við blóðtöku sem sýnt er í myndbandi AWF/TSB.

Rannsókn stofnunarinnar á hugsanlegum brotum á lögum um velferð dýra er enn ólokið og mun MAST ekki tjá sig að svo stöddu um málið. Engin ákvörðun hefur verið tekin hvort kært verði af hálfu MAST eða krafist fjársekta komi í ljós að brot hafi átt sér stað.

Ísteka tjáir sig ekki enn

Arnþóri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Ísteka, hefur ítrekað verið boðið að koma í viðtal um starfsemi fyrirtækisins, en hann hefur ýmist hafnað því eða ekki svarað skilaboðum eða tölvupóstum.


Tengdar fréttir

„Ég myndi sjálf berja þann sem legði hendur á mín hross“

„Ég er mjög ósátt við þetta myndband. Þarna birtast myndir heiman frá mér, og ekkert af minni starfsemi tengist því sem kemur fram í myndbandinu,“ segir Sæunn Þórarinsdóttir, hrossabóndi um myndband sem birt var í morgun af slæmri meðferð mera við blóðtöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×