Íslenski boltinn

Þróttur sækir sóknar­mann úr Kópa­vogi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danielle Marcano með boltann í leik með Tennessee-háskólanum á sínum tíma.
Danielle Marcano með boltann í leik með Tennessee-háskólanum á sínum tíma. Amanda Pruitt/Tennessee Athletics

Danielle Marcano mun leika með Þrótti Reykjavík í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu næsta sumar. Hún lék með HK í Lengjudeild kvenna síðasta sumar. 

Marcano skoraði sex mörk í 12 leikjum fyrir HK í sumar og hefur nú ákveðið að söðla um og leika með Þrótti í efstu deild sumarið 2022.

Áður en hún kom til Íslands lék Marcano með Tennessee-háskólanum í Bandaríkjunum. Þar lék hún til að mynda með Katie Cousins og Mary Alice Vignola. Þær hafa báðar leikið með Þrótti á undanförnum tveimur árum en hafa í dag báðar samið við Angel City FC, nýstofnað lið í Bandaríkjunum.

„Danielle er sóknarmaður sem við teljum að falli vel að leikstíl kvennaliðs Þróttar og hún sýndi það glöggt í leikjum HK á síðasta sumri að þarna er á ferð hörku leikmaður sem verður gaman að sjá í Þróttarabúningnum næsta sumar,“ sagði Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar Reykjavíkur um nýjasta leikmann liðsins.

Þróttur R. endaði í 3. sæti Pepsi Max deildar kvenna síðasta sumar ásamt því að komast alla leið í úrslit Mjólkurbikarsins þar sem liðið beið lægri hlut gegn Breiðabliki.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×