Þetta fullyrðir danski miðillinn B.T. sem segir að Eriksen muni þess í stað sækja sér bætur í gegnum tryggingar.
Eriksen og umboðsmaður hans munu hafa fundað með fulltrúum Inter í gær þar sem niðurstaðan varð sú að rifta samningi sem gilda átti til sumarsins 2024.
Eriksen hné til jarðar í landsleik með Danmörku á EM í sumar og fór í hjartastopp. Hann hefur ekki spilað fótbolta síðan þá og samkvæmt reglum ítalska knattspyrnusambandsins má hann ekki spila fótbolta á Ítalíu með bjargráðinn sem hann fékk græddan í sig.
Því þótti ekki annað í stöðunni en að Eriksen segði skilið við Inter til að geta haldið áfram með sitt líf og mögulega fótboltaferilinn.
Samningnum verður því rift af „heilbrigðisástæðum“, og samkvæmt B.T. verður málið því að tryggingamáli fyrir Eriksen.
Inter mun hins vegar ekki þurfa að greiða krónu í viðbót og sleppur við gríðarháan launakostnað því Eriksen var næstlaunahæstur í ítalska boltanum, samkvæmt Football Italia, með 7,5 milljónir evra í árslaun. Það jafngildir rúmlega 1,1 milljarði króna og aðeins Matthijs de Ligt, með 8 milljónir evra hjá Juventus, er tekjuhærri í ítalska boltanum.