Giovanni, sem hefur gælunafnið El Cholito, hefur kannski verið þekktastur hingað til fyrir að vera sonur Diego Simeone, þjálfara Atletico Madrid, en nú eru það afrekin inn á vellinum sem kom honum í fréttirnar.
Giovanni er núna þriðji markahæsti leikmaðurinn í Seríu A, rétt á eftir þeim Ciro Immobile og Dusan Vlahovic.
Simeone er kominn með 12 mörk í fyrstu 17 leikjunum með Hellas Verona og er að auki með þrjár stoðsendingar. Verona liðið er kannski bara í þrettánda sæti en eitt af markahæstu liðum deildarinnar.
Simeone kom á láni til Cagliari frá Fiorentina 2019 en Cagliari keypti hann í lok lánstímabilsins. Cagliari ákvað síðan að senda hann á lán til Hellas Verona í haust eftir að hann náði sér ekki alveg á strik á síðustu leiktíð.
Simeone skoraði ekki í fyrstu þremur leikjum sínum með Hellas Verona en fór síðan í gang og var meðal annars með fernu í sigri á Lazio. Hann skoraði síðan tvennu á móti bæði Juventus og Venezia.
Hann er þegar búinn að jafna sín bestu tímabil í Seríu A en hann skoraði 12 mörk í 35 leikjum fyrir Genoa 2016-17 og aftur tólf mörk í 37 leikjum með Cagliari tímabilið 2019-20. Mörkin urðu hins vegar aðeins sex í fyrra.
Giovanni Simeone er fæddur árið 1995 í Madrid en faðir hans var þá að spila með liði Atlético Madrid. Hann er bæði með spænskt og argentínskt vegabréf en valdi það að spila fyrir Argentínu.