Jólaskreytingar eru ekki fyrir alla en þær virðast sannarlega fyrir íbúa á Völlunum í Hafnarfirði sem hafa gengið ansi langt í jólaskreytingunum.
Sumir ganga lengra en aðrir, á Völlunum ríkir mikil ljósadýrð sem sést langar leiðir. Stærðarinnar snjókallar og aðrar upplýstar skreytingar, bláar, grænar og rauðar seríur lýsa upp alla götuna.

Þar má meira að segja finna frumlegar skreytingar en sjálfur jólasveinninn situr rólegur í bíl, upplýstum af jólaseríum, fyrir utan hús eitt.

Jólahöll í Kópavogi
Kópavogsbúar eru enginn eftirbátur Hafnfirðinga þegar kemur að jólaskreytingum. Þegar keyrt er inn í Lindahverfið tekur á móti manni sannkölluð jólahöll.
Höllin er skreytt smekklegum hvítum jólaljósum og greni. Á stétt við húsið taka myndarleg jólahreindýr á móti gestum.

Í hverfinu er mikið lagt upp úr jólaskreytingum og í miðjum tökum greip fréttamaður sjálfan trölla sem reynir að stela jólaseríum sem metnaðarfullir íbúar hafa sett upp við bílskúrinn sinn. Þó var ákveðið að skipta sér ekki af honum.

Bjórpeningur fer í jólaskraut
Hjónin Helgi Hafsteinsson og Hildur Elfa Björnsdóttir eru skreytingarmeistarar Kópavogs. Þau búa á Digranesvegi og hafa dundað sér við að setja upp jólaljós ásamt afabarni sínu síðustu daga. Samtals eru um tólf þúsund perur í garðinum og sex þúsund inni í húsinu.

Í samtali við fréttastofu segjast þau hafa farið hægt af stað í jólaskreytingum en þær hafi undið upp á sig í gegn um árin. „Alltaf bætt í á hverju ári og það er bara komið upp í þetta. Við bara elskum þetta jólastúss,“ segja þau.
Þau neita ekki að svo íburðarmiklar jólaskreytingar kosti sinn skilding. Fjármunum sem annars væri varið í eitthvað annað og verra sé eytt í skreytingarnar. „ Jú, við lítum á það svoleiðis að við reykjum ekki og við drekkum ekki. Og þetta er bara okkar fyllerí getum við sagt,“ segir Helgi.