Fótbolti

Samherji Eriksens rifjar upp þegar hann hné niður: „Óttuðumst allir að hann myndi deyja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yussuf Poulsen (nr. 20) og félagar í danska landsliðinu mynduðu hring í kringum Christian Eriksen eftir að hann hné niður í leik Danmerkur og Finnlands á EM í sumar.
Yussuf Poulsen (nr. 20) og félagar í danska landsliðinu mynduðu hring í kringum Christian Eriksen eftir að hann hné niður í leik Danmerkur og Finnlands á EM í sumar. getty/Stuart Franklin

Yussuf Poulsen, leikmaður danska landsliðsins, segist hafa óttast að Christian Eriksen myndi deyja þegar hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM í sumar. Hann segir Eriksen heppinn að þetta hafi gerst á fótboltavelli en ekki heima fyrir.

Sem frægt er hneig Eriksen niður í fyrsta leik Dana á EM. Sem betur fer voru viðbragðsaðilar snöggir til og björguðu lífi hans. Poulsen segir að samherjar Eriksens hafi óttast hið versta.

„Þegar við stóðum allir í kringum hann óttuðumst við að við myndum sjá hann deyja. Ég man hvernig við hvísluðum að hvor öðrum: vonandi hefur hann það af,“ rifjaði Poulsen upp.

Hann segir að það hafi orðið Eriksen til happs að þetta gerðist á fótboltavelli þar sem viðbragðsaðilar með öll tæki og tól hafi verið til staðar.

„Flestir hefðu dáið í hans stöðu. Hann var heppinn að þetta gerðist í leik og allt var til staðar til að endurlífga hann. Ef þetta hefði gerst heima í stofu væri hann ekki hérna núna,“ sagði Poulsen.

Eftir hjartastoppið var gangráður græddur í Eriksen. Hann má ekki spila með hann á Ítalíu og fékk því samningi sínum við Inter rift. Ekki liggur fyrir hvað tekur næst við á ferli Eriksens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×