Haraldur nefnir fleiri ástæður. „Já, við höfum ekki aðgang að stórum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og margar björgunarsveitir og því miðast sala flugelda á þessu svæði aðallega við bændur, barnafjölskyldur og einstaka sumarhúsafólk. Svo er það auðvitað umhverfissjónarmið, mengun sem kemur af þessu og rusl sem oft er skilið eftir hist og her. Auk þess verðum við að hafa í huga að í okkar nánasta umhverfi eru bændur með dýr sem fælast auðveldlega. Þess í stað höfum við einvörðungu Rótarskot til sölu fyrir áramótin auk þess sem fólk getur styrkt flugeldasýninguna okkar sem verður haldin á gamlárskvöld.“

Haraldur segir að viðbrögðin við netsölunni hafa farið fram úr björtustu vonum. „Salan byrjaði auðvitað rólega en tók rækilega við sér í dag. Þeir sem eru helst að kaupa í gegnum vefsíðuna eru brottfluttir Laugdælir og fólk á svæðinu í einangrun eða sóttkví. Svo eru líka aðilar á höfuðborgarsvæðinu sem hafa styrkt okkur rækilega í gegnum árin um þetta leiti árs, aðallega vegna þess að við seljum ekki flugelda, og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir,“ segir Haraldur.
50 manna sveit
Í Ingunni eru tæplega 50 manns, misvirkir en þó er kjarninn um það bil 15 karlar og konur á öllum aldri. „Verkefnin hjá okkur eru ansi fjölbreytt allt frá því að bjarga dýralæknum í snjófestu yfir í aðkomu að alvarlegum slysum. Auk þess höfum við séð um lokanir fyrir Vegagerðina á Lyngdals og Mosfellsheiði sem og ýmiskonar gæslu á hjólreiðakeppnum, þríþrautum og þess háttar. Einnig vorum við tökuliði BBC innan handar á Þingvallavatni i sumar, en við erum alvön þess háttar verkefnum,“ segir Haraldur, formaður Ingunnar bjartsýnn á góða netsölu á flugeldum fyrir áramótin og þrettándann.
Hægt er að kaupa flugelda eða rótarskot af Ingunni hér á þessari síðu
