Það var handritasafnarinn Árni Magnússon sem færði Kaupmannahafnarháskóla handritin að gjöf árið 1730.
Abid Raja, fyrrverandi menningarmálaráðherra Noregs, fór þess á leit síðasta sumar við danska menningarmálaráðuneytið að fá alls tólf handrit afhent. Kaupmannahafnarháskóli hefur nú hafnað beiðninni um að afhenda Norðmönnum sjö handrit.
Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn hefur hins vegar samþykkt að lána Norðmönnum fimm handrit til sýningarinnar, að því er segir í frétt NRK.
Anne Mette Hansen hjá Árnasafni í Kaupmannahöfn segir í samtali við DR að ákveðið hafi verið að hafna beiðninni þar sem ekki sé rétt að hafa handritin til sýninga í meira en þrjá mánuði þar sem hætta sé á að þau eyðileggist. Þá sé verið að rannsaka handritin við Kaupmannahafnarháskóla.
Aukaatriði í danskri sögu
Aslak Sira Myhre, forstjóri Þjóðarbókasafnsins í Noregi, segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með svar Dana. „Handritin eru aukaatriði í danskri sögu, en mjög mikilvæg norskri sögu.“
Meðal handritanna eru Sáttargjörð (Sættargjerda) sem er samningur milli kirkjunnar og norska ríkisins frá árinu 1277 og sömuleiðis Fríssbók, Codex Frisianus, þar sem í er að finna Heimskringlu.
Myhre segist ætla sér til Kaupmannahafnar til að ræða málið frekar.