Enski boltinn

Arsenal líklegast til að krækja í Coutinho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Philippe Coutinho hefur ekki fengið mörg tækifæri með Barcelona á tímabilinu.
Philippe Coutinho hefur ekki fengið mörg tækifæri með Barcelona á tímabilinu. getty/Alex Caparros

Philippe Coutinho gæti farið til Arsenal í næsta mánuði á láni frá Barcelona.

Xavi, nýr knattspyrnustjóri Barcelona, hefur tjáð Coutinho að hann eigi ekki von á að nota hann mikið og því er líklegt að Brassinn rói á önnur mið.

Coutinho hefur aðallega verið orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinni. Hann þekkir vel til þar eftir tíma sinn hjá Liverpool.

Samkvæmt spænska blaðiu Sport líst Coutinho best á Arsenal sem hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Arsenal heillar Coutinho allavega meira en Newcastle United sem hann hefur einnig verið orðaður við.

Coutinho fær tvö hundruð þúsund pund í vikulaun hjá Barcelona sem á í miklum fjárhagsvandræðum. Ljóst er að það myndi hjálpa félaginu talsvert að losna við Coutinho af launaskrá.

Barcelona keypti Coutinho frá Liverpool fyrir 142 milljónir punda í janúar 2018. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hjá Barcelona og var lánaður til Bayern München tímabilið 2019-20 þar sem hann vann þrefalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×