Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa margir hverjir verið mjög iðnir við að gagnrýna sóttvarnaaðgerðirnar í faraldrinum og segja þær hafa haft verulega slæm áhrif á vinnu fólks í landinu. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda telur að aðgerðirnar séu svo íþyngjandi að stjórnvöld verði að treysta fyrirtækjum til þess að halda starfseminni gangandi.
Kvíðir framhaldinu
„Blessunarlega höfum við sloppið sæmilega vel hingað til. Við höfum misst eina og eina vakt af og til, lentum í fimm manns í einu, það var svona mesta tjónið okkar,” segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. „Vissulega höfum við oft gengið lengra heldur en þarf til að vernda starfsemina en ég er hræddur um að miðað við umfangið sem er núna þá siglum við smám saman í strand, því miður. Ég er mjög kvíðinn því að starfsemin stöðvist.”
Andri segir það einungis tímaspursmál þar til smitin hafi lamandi áhrif á starfsemina, þrátt fyrir öll tiltæk ráð í sóttvörnum.
Tæp 5 prósent allra íbúa lokuð inni
Þetta eru ekki óþarfa áhyggjur hjá Andra. Af þeim tæplega 15 þúsund sem eru annað hvort í sóttkví eða einangrun er langstærstur hluti á höfuðborgarsvæðinu, um 10.500 manns, eða 4,5 prósent af íbúafjölda svæðisins. Næst hæsta hlutfallið er á Suðurnesjum, fjögur prósent, svo á Suðurlandi. Hlutfallslega eru fæstir innilokaðir á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Þó að mörg fyrirtæki geti verndað starfsemi sína með heimavinnu starfsfólks, þá eru það sannarlega ekki öll.
„Við erum auðvitað með rekstur og aðstæður, þar sem maður er nánast í úrslitaleik á hverjum degi. Auðvitað tekur það á taugarnar og auðvitað tekur það á,” segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innnes. Þar eru starfsmenn hraðprófaðir á hverjum degi. „Við höfum hingað til bara fengið einstök tilvik þar sem einstaklingar þurfa að fara í sóttkví eða hafa smitast, en heilt yfir hefur þetta gengið vel. Og núna þegar staðan er eitthvað eilítið öðruvísi þá finnst mér langt gengið að ætla að gerast einhver sérfræðingur í þeim efnum.”