Gríðarlega langar raðir hafa myndast við allar helstu bílaþvottastöðvar borgarinnar síðustu daga.
Þvottastöðvarnar verða sívinsælli viðkomustaður meðal Íslendinga og verður meira og meira að gera hjá þeim milli ára.
Árið 2020 tók bílaþvottastöðin Löður til dæmis við 190.000 bílum en þeir urðu svo 245.000 þúsund árið 2021, sem var algert metár hjá stöðinni.
„Ég held að þetta sé mest megnis umhverfissjónarmið hjá fólki og bara tími. Það tekur alveg þokkalegan tíma að setja sig í gírinn og þrífa bílinn,“ segir Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Löðri.

Þannig er umhverfisvænna að þvo bílinn hjá þvottastöð sem fargar spilliefnunum eftir viðurkenndum leiðum heldur en þegar það er gert í innkeyrslunni heima.
Um þúsund bílar á dag
Og síðustu daga hefur verið sérstaklega mikið að gera en um þúsund bílar fara nú daglega í gegn um þvott hjá Löðri.
Frost, kuldi og salt á vegum valda því að mikil drulla spænist upp og sest á bílana.
Svifrik í borginni hefur einnig verið mikið eftir flugeldasprengingar.

„Já, núna líka náttúrulega eftir gamlárskvöld. Við alveg sjáum það að það er mikið svifryk á bílunum eftir svona stórar og miklar hátíðir eins og gamlárskvöld og þá verður alveg rosalega mikið að gera,“ segir Elísabet.
Við náðum tali af nokkrum í langri bílaröðinni fyrir utan Löður í dag, meðal annars henni Natalíu Nótt Lindsay menntaskólanema sem var að mæta á bílaþvottastöð í fyrsta skipti. Hún kvaðst spennt fyrir því að renna sér í gegn um þvottinn.
Og það er óneitanlega spennandi að fara í gegn um bílaþvottastöð í fyrsta skipti. Það fékk fréttamaður sjálfur að prófa. Við rennum hér í gegn um þvottastöðina: