Erlent

Al­ríkis­lög­reglan lík­lega búin að ráða stóra ráð­gátu innan bók­mennta­heimsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margaret Atwood, höfundur Tha Handmaid's Tale, var meðal fórnarlamba svikahrappsins.
Margaret Atwood, höfundur Tha Handmaid's Tale, var meðal fórnarlamba svikahrappsins. epa/Facundo Arrizabalaga

Það kann að vera að ráðgáta sem hefur plagað bókmenntaheiminn í nokkur ár sé loks leyst en bandaríska alríkislögreglan hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa gabbað umboðsmenn og útgáfufyrirtæki til að senda sér handrit að óútgefnum bókum.

Hinn 29 ára Filippo Bernardini, ítalskur starfsmaður breska útgáfurisans Simon & Schuster, var handtekinn á John F Kennedy-flugvellinum í New York í gær. Hann hefur verið ákærður fyrir svik og fyrir auðkennastuld, sem hann er sagður hafa stundað til að afvegaleiða hundruðir einstaklinga og komast yfir óútgefin ritverk og uppköst.

Leiða má líkur að því að lögregluyfirvöld gruni að Bernardini sé að baki stórfelldri svikamyllu sem hefur staðið yfir í um fimm ár, þar sem höfundar, umboðsmenn og jafnvel dómarar Booker-verðlaunanna hafa verið gabbaðir til að senda frá sér handrit bóka sem beðið hefur verið með eftirvæntingu.

Meðal verkanna eru meðal annars bækur eftir Margaret Atwood, Sally Rooney og leikarinn Ethan Hawke en íslenskir höfundar hafa einnig orðið fyrir barðinu á bókaþjófnum, líkt og Fréttablaðið greindi frá í október síðastliðnum.

Hinn óprúttni eða hinir óprúttnu aðilar bjuggu til fjölda netfanga þar sem búið var að skipta út bókstöfum til að plata viðtakandann, til að mynda að setja r og n til að koma í stað m; @penguinrandornhouse.com.

Það sem vekur athygli er að viðkomandi virðist ekki hafa starfrækt svikamylluna til að græða á stuldinum; enginn var krafinn um lausnargjald né var handritunum nokkurn tímann lekið.

Vinnuveitandi Bernardini, Simon & Schuster, er ekki nefndur í ákærum og talsmaður fyrirtækisins segir fregnirnar hafa verið verulegt áfall. Það sé forgangsverkefni útgáfunnar að standa vörð um verk höfunda sinna og fyrirtækið sé þakklátt lögreglu fyrir störf sín.

The Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×