Fólkið var handtekið í janúar 2020. Fram kemur í ákæru að Jónas og Steingrímur hafi verið handteknir við Suðurlandsveg í Reykjavík eftir að lögregla fylgdi þeim úr sumarbústaðnum í Miðdal í Kjósarhreppi en Jónas hafi kastað fíkniefnum út úr bifreiðinni við handtöku. Konan var handtekin í sumarbústaðnum.
Vill ýmsa muni gerða upptæka
Lögregla lagði hald á rúm 12 grömm af amfetamíni í sumarbústaðnum og rúm 20 grömm í bifreiðinni. Þá er Jónas ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 254 grömm af amfetamíni sem fundust á heimili hans. Steingrímur er jafnframt ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum fimm lítra af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem þó fundust á heimili annars manns. Konan er einnig ákærð fyrir að hafa haft fjórtán kannabisplöntur í sinni vörslu og að hafa ræktað slíkar plöntur um nokkurt skeið.
Þá krefst saksóknari upptöku á ýmsum munum í tengslum við málið, til dæmis öryggisgrímu, mæliglösum, glerskálum, stórum sprautum, þremur IKEA-flöskum og rafmagnseldunarhellu. Reikna má með að saksóknari telji þessa muni hafa verið notaða við amfetamínframleiðsluna. Einnig krefst saksóknari upptöku á Rolex-armbandsúri sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
Áður komist í kast við lögin
Málið vakti talsverða athygli þegar það kom upp í janúar fyrir nú tveimur árum. Sex voru upphaflega úrskurðuð í gæsluvarðhald en í febrúar 2020 voru Jónas og Steingrímur einir eftir í varðhaldi.
Jónas Árni Lúðvíksson hefur komist í kast við lögin meðal annars í Papeyjarmálinu svokallaða árið 2009. Hann hlaut fimm ára dóm fyrir að hafa tekið við efnum við komuna til landsins á Djúpavogi.
Jónas var árið 2007 ákærður fyrir kókaínsmygl ásamt Rúnari Þór Róbertssyni. Þeir voru báðir sýknaðir í málinu en Rúnar Þór hlaut sömuleiðis dóm í Papeyjarmálinu.
Steingrímur hlaut 30 mánaða fangelsisdóm fyrir peningaþvætti árið 2017 í VSK-málinu svokallaða. Hann var handtekinn í Venesúela árið 2010 og framseldur þaðan vegna málsins. 240 milljónir króna sem sviknar voru út úr endurgreiðslukerfi skattsins á tæpu einu ári gufuðu upp.
Fréttin hefur verið uppfærð.