Fótbolti

Urðu fyrir hnífaárás á Afríkumótinu í fótbolta en ætla ekki heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er mikill áhugi á alsírska landsliðinu í heimalandinu eftir gott gengi síðustu ár. Alsíringar eru ríkjandi Afríkumeistarar.
Það er mikill áhugi á alsírska landsliðinu í heimalandinu eftir gott gengi síðustu ár. Alsíringar eru ríkjandi Afríkumeistarar. Getty/Mohammed Dabbous

Alsírskir blaðamenn lentu í óskemmtilegri aðstöðu á Afríkumótinu í fótbolta sem fer að þessu sinni fram í Kamerún. Flestir væru smeykir að halda áfram störfum en ekki þeir.

Blaðamennirnir urðu fyrir hnífaárás í borginni Douala á fyrsta degi mótsins en þeir voru komnir til Kamerún til að fylgjast með landsliði Alsír sem spilar fyrsta leik sinn í dag.

Mehdi Dahak, sem á fótboltavefmiðil í Alsír, segir að kollegi sinni hafi endað á sjúkrahúsi eftir tvö djúp sár og hann sjálfur skarst í andliti.

Blaðamennirnir voru rændir en árásarmennirnir komust yfir peninga, þrjá síma og vegabréf mannanna. Hún varð aðeins nokkrum sekúndum eftir að þremenningarnir yfirgáfu hótel sitt í stærstu borg Kamerún.

Þrátt fyrir þessa lífsreynslu þá vilja allir blaðamennirnir halda áfram störfum sínum á mótinu og eru því ekki á heimleið.

Smail Mohamed Amokrane, kom verst út úr árásinni en hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.

„Hann vill halda áfram störfum á mótinu og ég líka,“ sagði Mehdi Dahak við breska ríkisútvarpið.

„Hann fékk tvö djúp sár eftir hnífstungurnar. Hann var stunginn í bakið en þeir saumuðu hann á sjúkrahúsinu. Hann er að hvíla sig. Þeir komu úr launsátri og réðust á okkur aðeins tíu metrum frá hótelinu,“ sagði Dahak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×