Fótbolti

Flautaði leik á Afríkumótinu tvisvar af áður en níutíu mínútur höfðu verið spilaðar

Sindri Sverrisson skrifar
Janny Sikazwe flautar hér leikinn af en eins og sjá má höfðu bara 85 mínútur verið spilaðar.
Janny Sikazwe flautar hér leikinn af en eins og sjá má höfðu bara 85 mínútur verið spilaðar. Skjáskot

Einhver furðulegasta atburðarás síðari ára í alheimsfótboltanum átti sér stað undir lok leiks Túnis og Malí á Afríkumótinu í dag.

Dómari leiksins, Sambíumaðurinn Janny Sikazwe, flautaði tvívegis til leiksloka áður en búið var að spila í 90 mínútur. Þegar þetta er skrifað er mögulegt að liðin fari aftur út á völl og spili uppbótartímann sem eftir var af leiknum.

Malí var 1-0 yfir þegar dómarinn reyndi að flauta leikinn af á 85. mínútu. Eftir mótmæli við því hélt leikurinn áfram þar til að hann flautaði aftur af, en þá á 89. mínútu.

Í millitíðinni sýndi hann El Bilal Touré, leikmanni Malí, rauða spjaldið. Áður hafði orðið töf á leiknum vegna VAR-dóms, þegar Túnis fékk vítaspyrnu á 76. mínútu en sú spyrna var varin.

Alsírskur blaðamaður segir að nú standi yfir viðræður um það hvort að síðustu mínútur leiksins verði spilaðar, eða hvort að leiknum sé einfaldlega lokið með 1-0 sigri Malí.

Uppfært: Búið er að lýsa yfir 1-0 sigri Malí. Fleiri mínútur voru ekki spilaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×