Fótbolti

Dómarinn sem gerði allt vitlaust í Afríkukeppninni var settur í bann vegna gruns um spillingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janny Sikazwe var maður gærdagsins í Afríkukeppninni.
Janny Sikazwe var maður gærdagsins í Afríkukeppninni. getty/James Williamson

Dómarinn sem flautaði leik Túnis og Malí í Afríkukeppninni tvisvar af áður en honum var lokið var settur í bann vegna gruns spillingu fyrir nokkrum árum.

Óhætt er að segja að Janny Sikazwe frá Sambíu hafi verið umtalaðasti maður gærdagsins í Afríkukeppninni. Það kom þó ekki til af góðu.

Sikazwe flautaði nefnilega leikinn tvisvar af áður en honum var lokið, fyrst eftir rétt rúmar 85 mínútur og þegar tíu sekúndur voru eftir, þrátt fyrir að gera hafi þurft hlé á leiknum til að skoða atvik á myndbandi auk vatnspásu. Túnisar voru æfir í leikslok enda rændi Sikazwe þá möguleikanum á að jafna metin. Malímenn voru 1-0 yfir en manni færri.

Eftir mikla reikistefnu var ákveðið að spila þær þrjár mínútur sem Sikazwe átti að bæta við leikinn. Ekkert varð þó úr því. Túnisar mættu ekki aftur út á völlinn og fjórði dómarinn dæmdi því Malímönnum sigur, 3-0.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sikazwe kemst í fréttirnar fyrir vafasama dómgæslu. Í nóvember 2018 setti afríska knattspyrnusambandið hann í bann vegna gruns um spillingu. Hann þótti hafa dæmt leik í Meistaradeild Afríku heldur skringilega. FIFA aflétti hins vegar banni Sikazwes í janúar 2019.

Sikazwe hefur verið í fremstu röð dómara Afríku um langt árabil. Hann dæmdi til að mynda úrslitaleik HM félagsliða 2016, úrslitaleik Afríkukeppninnar 2017 og tvo leiki á HM 2018. Meðfram dómgæslunni starfar Sikazwe sem kennari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×