Leikurinn var jafn og spennandi strax frá fyrstu mínútu. Liðin héldust í hendur lengi vel í fyrri hálfleik, en heimakonur í Aalborg náðu mest þriggja marka forskoti fyrir hlé. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 17-16, Aalborg í vil.
Áfram var jafnræði með liðunum í síðari hálfleik og hvorugu liðinu tókst að hrista andstæðinginn af sér. Sandra jafnaði metin fyrir heimakonur þegar um sjö mínútur voru til leiksloka í stöðunni 27-27, og liðið tók svo forystuna í næstu sókn. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks, en það voru heimakonur sem áttu lokaorðið og unnu að lokum eins marks sigur, 31-30.
Eins og áður segir skoraði Sandra sjö mörk fyrir Aalborg og var næst markahæsti leikmaður liðsins. Aalborg situr nú í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig, fimm stigum meira en Vendsyssel sem situr í sjötta sæti. Þriðja sæti deildarinnar gefur sæti í umspili um laust sæti í efstu deild.