Lífið

„Súrrealískur“ Íslendingafans á Tenerife

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Athafnakonan og áhrifavaldurinn Birgitta Líf Björnsdóttir er ein hinna fjölmörgu Íslendinga sem dvalið hafa á Tenerife undanfarnar vikur.
Athafnakonan og áhrifavaldurinn Birgitta Líf Björnsdóttir er ein hinna fjölmörgu Íslendinga sem dvalið hafa á Tenerife undanfarnar vikur. Stöð 2/Ragnar Visage

Heimsferðir hafa nær aldrei selt fleiri jólaferðir til Tenerife og í fyrra en eyjan er jafnframt vinsælasti áfangastaður Play þessa stundina. Íslendingur á Tenerife lýsir staðnum sem algjörri Íslendinganýlendu.

Þegar rennt er yfir samfélagsmiðla virðist sem nær annar hver Íslendingur hafi farið til Tenerife yfir jól og áramót - eða sé staddur á eyjunni þessa stundina. Færsla Ágústs Beinteins Árnasonar á TikTok hér fyrir neðan gefur ef til vill ákveðna vísbendingu um andrúmsloftið á Tenerife um jólin.

@gustib_1

svona leit Tenerife út um jólin hahah go comment ef þið fóruð

original sound - Gústi B

Tenerife er vinsælasti áfangastaður Play þessa stundina en síðustu sex vikur, frá 1. desember til 15. janúar, seldi félagið 4000 flugsæti til eyjunnar. Mikill áhugi hefur einnig verið á Tenerife hjá Icelandair, sem flogið hefur 29 sinnum til og frá Tenerife á tímabilinu - þar af ellefu sinnum það sem af er janúar. 

Og Tenerife-áhugi Íslendinga gæti hæglega verið í hæstu hæðum en samkvæmt frétt Túrista flugu fleiri Íslendingar til Tenerife á seinni helmingi árs í fyrra en fyrir heimsfaraldur. 

Íslenska alls staðar

Ingveldur Anna Sigurðardóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins er stödd á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni. 

Hún hefur verið þar í rúma viku og lætur ákaflega vel af dvölinni. 

Ingveldur Anna Sigurðardóttir er ánægð með dvölina á Tenerife.

Ingveldur segir að ekki sé þverfótað fyrir Íslendingum á eyjunni.

„Maður heyrir íslensku við sundlaugarbakkann, í fyrradag sátum við við hliðina á Íslendingum á veitingastað og við vorum í minigolfi áðan og þar voru að minnsta kosti 10-15 Íslendingar á undan okkur,“ segir Ingveldur.

Í útlöndum komi það henni venjulega á óvart að rekast á Íslending. 

Sú sé alls ekki raunin á Tenerife um þessar mundir þar sem Íslendingarnir virðast rekast á hver annan. 

Og sækja sér vænan skammt af D-vítamíni í sólarleysinu sem landsmenn eru margir hverjir orðnir þreyttir á.

„Þetta er svona annar heimavöllur okkar Íslendinga. Þetta er bara mjög súrrealískt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.