Atvinnuréttindi skipstjórans runnu úr rétt fyrir jól en þrátt fyrir það hélt hann áfram að sigla Herjólfi. Samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna er óheimilt að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm. Skipstjórinn skráði nöfn annarra skipstjóra í stað síns eigins án þeirra vitundar.
Lítur þú svo á að skipstjórinn hafi teflt öryggi farþega í tvísýnu með því að sigla skipinu án þess að endurnýja réttindin?
„Þetta er algjör dómgreindarbrestur að láta réttindin renna út. Það er hlutverk skipstjóra að passa að skírteinin séu í lagi. Það er alltaf á hans ábyrgð. Dómgreindarleysið gríðarlegt. En þó að réttindin renna út þá verður hann ekki vanhæfur til þess að sigla skipinu á einum degi. Hann hefur verið starfsmaður á Herjólfi í 20 ár og sinnt því vel.“
Starfsfólki brugðið
Hörður segir að starfsfólki hafi orðið brugðið að heyra að hann skráði nöfn annarra starfsmanna í stað síns eigins.
„Fólki er brugðið og þetta hefur tekið á áhöfn skipsins. Þetta er erfitt og flókið mál sem við erum að vinna í.“
Vísir greindi frá því fyrir helgi að lögreglurannsókn væri hafin á málinu en brot gegn lögum um lögskráningu sjómanna og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Starfsmenn segja upp
Að minnsta kosti fjórir starfsmenn Herjólfs hafa sagt upp störfum og aðrir íhuga að gera slíkt hið sama vegna málsins og annarra ósátta. Aðspurður hvort þetta gefi til kynna að taka þurfi til í innri málum Herjólfs segir Hörður:
„Þetta mál er til þess fallið að við þurfum klárlega að líta inn á við.“