Handbolti

Svíþjóð Evrópumeistari í fimmta sinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/Getty

Svíþjóð er Evrópumeistari í handbolta eftir sigur á Spánverjum í úrslitaleik í Búdapest í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Svíar höfðu þó yfirhöndina lengstum. Þrátt fyrir það leiddu Spánverjar með einu marki í leikhléi, 12-13.

Áfram var mikið jafnræði með liðunum í síðari hálfleik og munurinn á milli þeirra aldrei meiri en tvö mörk. Lokamínútan var æsispennandi en lokasókn Spánverja arfaslök og skildi eftir rúma hálfa mínútu fyrir Svía til að gera út um leikinn.

Það nýttu Svíarnir vel og sóttu vítakast. Niklas Ekberg tryggði Svíum sinn fyrsta titil í 20 ár með öruggu víti. Lokatölur 27-26, Svíþjóð í vil.

Andreas Palicka var frábær í marki Svía og varði þrettán skot en Ekberg og Oskar Bergendahl markahæstir Svía með fimm mörk hvor.

Þetta er í fimmta sinn sem Svíþjóð vinnur EM í handbolta en í fyrsta sinn síðan árið 2002. Eru Svíar sigursælasta þjóð Evrópumótsins frá upphafi en Frakkar koma næstir með þrjú gullverðlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×