Erlent

Norð­menn stíga stórt skref í átt að takmarkaleysi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jonas Gahr Støre er forsætisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre er forsætisráðherra Noregs. EPA/Kay Nietfeld

Norðmenn áætla að vera búnir að afnema allar takmarkanir vegna kórónuveirunnar þann 17. febrúar næstkomandi. Strax í kvöld verður stórum hluta takmarkana þó aflétt.

„Miðað við allt sem við vitum í dag, þá er rétt að afnema flestar takmarkanir, með undantekningum þó,“ hefur VG eftir Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sem ávarpaði fréttamenn á fundi í dag.

Klukkan ellefu í kvöld að staðartíma, tíu að íslenskum tíma, verður ýmsum takmörkunum aflétt í Noregi. Þannig falla allar fjöldatakmarkanir úr gildi, sem og fjarlægðarmörk á sitjandi viðburðum. Bann við afgreiðslu áfengis á veitinga- og skemmtistöðum fellur sömuleiðis úr gildi, og skólar hvattir til þess að taka upp fulla staðkennslu að nýju.

Þá verður vinnuveitendum sjálfum gert að meta hversu mikil þörf er á heimavinnu starfsmanna sinna, en ítrekað að vinnustaðir geri ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að margir úr starfsliðinu veikist á sama tíma. Þá verður ekki lengur gerð krafa um að ferðamenn undirgangist kórónuveirupróf við komuna til Noregs.

Eins metra regla og dansbann

„Ég vil þó ítreka: Faraldrinum er ekki lokið. Hvorki í Noregi né úti í heimi. Það verða áfram ráðleggingar og reglur í gildi,“ sagði forsætisráðherrann á fundinum.

Eins metra fjarlægðarregla verður enn í gildi á ýmsum stöðum, og grímuskylda þar sem ekki er hægt að viðhafa hana.

Þá verður ekki leyfilegt að dansa á skemmtistöðum, sem þó geta nú haft opið inn í nóttina. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að eins metra reglan gildi áfram, en eðli málsins samkvæmt samræmist dans á skemmtistöðum ekki þeirri reglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×