Fótbolti

Ronaldo um Haaland: Verður sá besti í heimi en er það ekki í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland á framtíðina fyrir sér í boltanum enda ennþá bara 21 árs gamall.
Erling Haaland á framtíðina fyrir sér í boltanum enda ennþá bara 21 árs gamall. EPA-EFE/SASCHA STEINBACH

Brasilíska goðsögnin Ronaldo hefur trú á því að hinn norski Erling Braut Haaland verði besti framherji heims en segir að hann sé ekki þar ennþá.

Ronaldo var óumdeilanlega sjálfur besti framherji heims þegar hann upp á sitt besta og um tíma markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins frá upphafi.

„Akkúrat núna er Karim Benzema án efa besti framherji heims. Á eftir honum er síðan Robert Lewandowski. Haaland verður númer eitt en eins og er þá eru tveir betri en hann,“ sagði Ronaldo í viðtali við Christian Vieri á Twitch-stöðinni Bobo TV. Marca segir frá.

Ronaldo segir að stóri gallinn hjá Haaland sé að hann er ekki með sömu tækni og hinir tveir.

Ronaldo var magnaður leikmaður á sínum tíma þar sem hann spilaði með liðum eins og Barcelona, Internazionale Milan, Real Madrid og AC Milan.

Þegar Barcelona seldi hann til Internazionale varð hann dýrasti leikmaður heims.

Ronaldo fékk Gullhnöttinn þegar hann var bara 21 árs en enginn yngri hefur fengið þau virtu verðlaun. Hann hafði skorað yfir tvö hundruð mörk fyrir félagslið og landslið þegar hann var 23 ára.

Slæm hnémeiðsli tóku nánast þrjú ár af ferli hans en hann kórónaði endurkomu sína eftir þau með því að verða markakóngur og heimsmeistari með Brasilíu á HM 2022.

Erling Braut Haaland er 21 árs gamall eins og þegar Ronaldo var orðinn sá besti í heimi. Hann er enn leikmaður Borussia Dortmund þar sem hann hefur skorað 80 mörk í 79 leikjum í öllum keppnum þar af 15 mörk í 13 leikjum í Meistaradeildinni.

Real Madrid hefur verið orðað við leikmanninn og mikið skrifað um að hann verði keyptur næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×