Niðurstöðurnar voru kynntar á starfsmannafundi Eflingar í morgun en sálfræðistofan var fengin til að gera úttektina eftir uppþotið sem þar varð í haust. Þá sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, þáverandi formaður Eflingar, af sér auk þess sem Viðar sagði upp störfum.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er dregin upp svört mynd af stjórnarháttum Viðars og Sólveigar á vinnustaðnum. Stjórnarhættirnir eru sagðir hafa batnað til muna eftir að þau hurfu frá störfum og ný forysta tók við í haust.
Úttektin er byggð á viðtölum við hátt í fimmtíu starfsmenn skrifstofunnar. Ekki var gerð sérstök eineltisúttekt.
Það er þó mat sálfræðistofunnar eftir viðtölin að framkoma Viðars við nokkra undirmenn sína eigi að flokka sem vinnustaðaeinelti og í skýrslunni segir að hann hafi einnig gerst sekur um kvenfyrirlitningu.
Þá segir að starfsfólk skrifstofunnar hafi margoft leitað til Sólveigar Önnu og kvartað undan Viðari en hún hafi aldrei aðhafst neitt í málinu.
Sem fyrr segir var ákveðið að fá óháðan aðila til að gera vinnustaðaúttektina í nóvember síðastliðnum og áttu niðurstöðurnar alltaf að vera kynntar fyrir starfsmannahóp skrifstofunnar í kring um lok janúar.
Forystufólk Eflingar vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu í morgun en segir að von sé á tilkynningu vegna úttektarinnar síðar í dag.