Fótbolti

Kvarta yfir því að Kosta Ríka hafi teflt fram covid-smituðum leikmönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Jamaíku og Kosta Ríku í undankeppni HM 2022.
Úr leik Jamaíku og Kosta Ríku í undankeppni HM 2022. getty/Douglas P. DeFelice

Jamaíska knattspyrnusambandið ætlar að kvarta til FIFA vegna gruns um að Kosta Ríka hafi teflt fram tveimur kórónuveirusmituðum leikmönnum í leik liðanna í undankeppni HM 2022 í vikunni.

Aðallæknir jamaíska knattspyrnusambandsins tjáði þarlendum fjölmiðlum að sex úr hópi Kosta Ríku hefðu greinst með veiruna við komuna til Jamaíku.

Þar af voru tveir leikmenn sem spiluðu leikinn gegn Jamaíkum á miðvikudaginn. Kosta Ríku-menn unnu 0-1 sigur með marki Joels Campbell, fyrrverandi leikmanns Arsenal.

Formaður jamaíska knattspyrnusambandsins, Dalton Wint, hefur staðfest að hann ætli að senda kvörtun til FIFA vegna smituðu leikmannanna.

„Ég veit ekki hvort við getum áfrýjað en við sendum pottþétt eitthvað til FIFA til að grafast fyrir um það hvernig þetta getur gerst því þetta er augljóst brot á reglum,“ sagði Wint.

Knattspyrnusamband Kosta Ríku hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það hafnar því að hafa gert nokkuð rangt. Í henni segir að einn leikmaður og þrír úr starfsliði landsliðsins hafi greinst með veiruna við komuna til Jamaíku og þeir hafi verið sendir í einangrun. 

Þá hafi tveir leikmenn Kosta Ríku verið nýbúnir að jafna sig af veirunni. Þeir hafi hins vegar fengið leyfi hjá FIFA og knattspyrnusambandi Norður- og Mið-Ameríku, CONCACAF, til að spila. En þegar leikurinn var hafinn hafi jamaískir læknar gert athugasemdir við að leikmennirnir spiluðu. Þeir fengu þó að klára leikinn.

Jamaíka á ekki lengur möguleika á að komast á HM en Kosta Ríka er enn í baráttunni. Kosta Ríku-menn hafa komist á fjögur HM á þessari öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×