Íslenski boltinn

Vig­dís Edda fer úr Kópa­vogi til Akur­eyrar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vigdís Edda er mætt til Akureyrar.
Vigdís Edda er mætt til Akureyrar. Þór/KA

Efstu deildarlið Þórs/KA hefur staðfest komu Vigdísar Eddu Friðriksdóttur en hún hefur leikið með Breiðabliki undanfarin tvö ár. Alls lék hún 35 mótsleiki fyrir Blika, þar af sex í Meistaradeild Evrópu.

Vigdís Edda er fædd árið 1999 og lék með Tindastól við góðan orðstír áður en hún hélt í Kópavoginn. Hún er nú farin nær heimaslóðunum þar sem hún finnur kunnuglegt andlit en annar þjálfara Þórs/KA – Jón Stefán Jónsson – þjálfaði Tindastól er Vigdís Edda lék með liðinu.

„Ég er gífurlega ánægður með að fá Vigdísi í Þór/KA. Við þekkjumst vel frá því ég þjálfaði hana í Tindastóli og þarna fer stelpa sem getur náð ofboðslega langt og styrkir okkar hóp mikið. Hún mun smellpassa í hópinn okkar bæði sem leikmaður og karakter. Svo ég tali nú ekki um hve vel hún hentar í leikstíl liðsins," sagði Jón Stefán er Vigdís Edda var tilkynnt sem nýjasta viðbót Þórs/KA liðsins.

„Hún er frábær viðbót við hópinn og ég er virkilega spenntur að vinna með henni. Við vitum hvers konar gæðum hún býr yfir og búumst við að hún smellpassi við hópinn hér," sagði bætti Perry Mclachlan, hinn þjálfari liðsins, við í viðtali við vefsíðu félagsins.

Vigdís Edda skrifar undir tveggja ára samning við Þór/KA sem endaði í 6. sæti Pepsi Max-deildar kvenna á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×