Hvorugu liðinu tókst að brjóta ísinn fyrir hálfleikshléið og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Gestirnir í Cagliari tóku þó forystuna snemma í síðari hálfleik með marki frá Gaston Pereiro eftir stoðsendingu frá Dalbert.
Ekki batnaði staðan fyrir heimamenn á 53. mínútu þegar Juan Musso, markvörður Atalanta, nældi sér í beint rautt spjald fyrir að brjóta á Gaston Pereiro útan vítateigs þegar sá síðarnefndi var sloppinn einn í gegn.
Liðsmenn Atalanta þurftu því að leika seinustu 40 mínútur leiksins manni færri.
Það kom þó ekki í veg fyrir það að það voru þeir sem skoruðu næsta mark. Þar var að verki Jose Luis Palomino þegar hann skallaði frákast eftir skot frá Duvan Zapata í netið á 64. mínútu.
Staðan var þó ekki jöfn lengi því að aðeins fjórum mínútum síðar tóku gestirnir forystuna á ný með öðru marki frá Gaston Pereiro, en það reyndist seinasta mark leiksins.
Niðurstaðan varð því 2-1 sigur Cagliari sem lyfti sér upp úr fallsæti með sigrinum. Liðið situr nú í 17. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 24 leiki, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Atalanta situr hins vegar enn í fjórða sæti deildarinnar með 43 stig eftir 23 leiki, aðeins einu stigi fyrir ofan Juventus sem getur lyft sér upp fyrir Atalanta með sigri gegn Verona í kvöld.

Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.