Kanada vann 6-1 sigur á Rússlandi er þjóðirnar mættust í íshokkí á Vetrarólympíuleikunum. Alexandra Vafina, leikmaður Rússlands, segir það nægilega erfitt að spila við kanadíska landsliðið án þess að bera grímu, með grímu fyrir andlitinu er það nær ómögulegt.
„Það kom ekki nóg af súrefni í gegn. Fyrsti leikhluti var því nokkuð erfiður en við náðum að venjast grímunum þegar leið á leikinn,“ sagði Vafina einnig.
Leikur þjóðanna var fyrsti íshokkí leikur Ólympíuleikanna þar sem krafist var að allir leikmenn myndu bera grímu. Ástæðan var sú að leikmenn rússneska liðsins greindust með Covid-19 bæði fyrir og eftir leik liðsins gegn Bandaríkjunum á laugardag.
Upphaflega var leiknum frestað þar sem niðurstöður rússneska liðsins úr skimun þess frá því fyrr um daginn voru ekki komnar í hús. Á endanum var ákveðið að spila en bæði lið myndu bera grímur.

Niðurstöðurnar komu svo fyrir síðasta leikhluta og ákvað rússneska liðið að taka sínar af en leikmann kanadíska liðsins kláruðu leikinn með grímur fyrir andliti sínu.
„Við höfðum spilað með grímur fyrstu tvo leikhluta leiksins. Af hverju ekki að vera öruggar og spila síðasta leikhlutann með grímur,“ sagði Natalie Spooner, framherji Kanada, að leik loknum.