Lífið

Gísli fyrstur til að gefa blóð 250 sinnum

Atli Ísleifsson skrifar
Gísli I. Þorsteinsson, fyrrverandi lögreglumaður, var mættur í Blóðbankann í morgun. Ekki í fyrsta sinn.
Gísli I. Þorsteinsson, fyrrverandi lögreglumaður, var mættur í Blóðbankann í morgun. Ekki í fyrsta sinn. Blóðbankinn

Gísli I. Þorsteinsson, fyrrverandi lögreglumaður, varð í morgun fyrstur manna hér á landi til að gefa blóð 250 sinnum.

Blóðbankinn vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni í morgun, en Gísli er í hópi blóðflögugjafa og mætir því á fjögurra til sjö vikna fresti í slíka gjöf á Snorrabraut í Reykjavík þar sem Blóðbankinn er til húsa.

„Þetta gekk bara vel. Mér líður alltaf mjög vel eftir þessar gjafir og hvet að sjálfsögðu alla til að gefa blóð,“ segir Gísli í samtali við Vísi.

Hann segist hafa fyrst gefið blóð á áttunda áratugnum þegar hann var ungur lögreglumaður. „Ég hef reglulega gefið blóð síðan þó að það hafi orðið smá hlé þegar ég var í afreksíþróttum.“

Gísli fer í blóðflögugjafir þar sem blóð er tekið úr gjafanum og blóðsöfnunarvél dælir svo blóðinu um skilvindu þar sem það aðskilst í rauðkorn, blóðvökva og blóðflögur. Blóðgjafinn fær svo rauðu blóðkornin til baka ásamt hluta af blóðvökvanum. Blóðflögugjafar geta því farið oftar í Blóðbankann til að gefa en „hefðbundnir blóðgjafar“ sem þurfa að bíða í þrjá til fjóra mánuði áður hægt er að gefa á nýjan leik.

Hér á landi kveða reglur á um að blóðflögugjafar mega ekki vera eldri en sjötíu ára. Gísli, sem verður sjötugur í ágúst, segist þó vona að hann geti áfram gefið blóð. 

„Ég vona að þetta verði skoðað. Ég vil gefa blóð áfram. Það væri synd ef ég fengi það ekki. Sjötíu er bara tala og segir ekki til um ástand blóðgjafans,“ segir Gísli glaður í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×