Undanfarnar tvær vikur hefur bólusetningarskyldu verið harðlega mótmælt í höfuðborginni Ottawa og víða annars staðar, sérstaklega á landamærum Kanada og Bandaríkjanna. Í Ottawa hefur neyðarástand verið í gildi frá því um helgina.
Stjórnvöld í Kanada hafa þungar áhyggjur af þeim efnahagslegu áhrifum sem mótmælin munu hafa í för með sér og krefjast þess að þeir láti af þeim umsvifalaust. Bílstjórarnir teppa mikilvægar leiðir sem tengja löndin tvö og hyggjast halda því til streitu nema bólusetningarskylda í landinu verði afnumin.
Mörg hundruð milljónir dala teppist á hverjum degi
Bílstjórarnir teppa nú tvær mikilvægar umferðaræðar: Ambassador brú, sem tengir bandarísku borgina Detroit við Windwor í Ontario, og Coutts leiðina, sem tengir Montana við Alberta. Vörur að andvirði 300 milljóna dala, eða um 37 milljarða króna, eru fluttar um Ambassador brú eina á hverjum einasta degi.

Eins og áður segir hafa mótmælin þegar haft mikil efnahagsleg áhrif og stöðvað flutning nauðsynlegra vara milli landamæranna. Tveir af stærstu bílaframleiðendum heims, Ford og Toyota, hafa þurft að skella í lás þar sem þeir fá ekki nauðsynlega varahluti.
Þegar hafa 23 verið handteknir og áttatíu sakamálarannsóknir eru í gangi vegna mótmælanna og deila yfirvöld nú um það hvernig sé best að leysa úr flækjunni sem myndast hefur. Lögreglan í Ottawa hefur gefið það út að hver sem tekur þátt í mótmælunum með því að stoppa umferð geti átt yfir höfði sér ákæru en nargir hafa varað við því að handtökur muni aðeins reita mótmælendur til frekari reiði.
Mótmælendur safnast saman víða um heim
Mótmæli bílstjóranna hafa gefið öðrum byr undir báða vængi. Heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna fylgist til dæmis með hópi vörubílstjóra í Bandaríkjunum sem hafa lagt á ráðin um að teppa umferð í stórborgum til að mótmæla bólusetningum.

Ráðuneytið telur hættu á að bílstjórarnir muni tímasetja mótmæli sín þannig að þau hafi áhrif á Ofurskálina svokölluðu, úrslitaleik NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta, sem fer fram í Los Angeles á sunnudag og á stefnuræðu Joe Biden Bandaríkjaforseta 1. mars næstkomandi.
Þá virðast bólusetningar- og sóttvarnaaðgerðaandstæðingar víða um heim hafa stóreflst við mótmælin í Kanada. Kröftug mótmæli hafa farið fram í Wellington í Nýja-Sjálandi undanfarna daga þar sem fjöldi fólks hefur verið handtekinn, og mótmælendur hafa safnast saman í Ástralíu, Frakklandi, Alaska og víða annars staðar í Evrópu.
Fram kemur í frétt AP að fréttastofan hafi fundið minnst tug Facebook-hópa þar sem hvatt er til mótmæla til stuðnings bílstjórunum í Kanada. Í hópunum séu minnst hálf milljón manna.